Laugardaginn  23. nóvember 2019 kl. 13.00 verður opnuð ný sýning í Hallsteinssal. Þar sýna fjórar konur, þær Elísabet Haraldsdóttir, Harpa Einarsdóttir, Ingibjörg Huld Halldórsdóttir og Ósk Gunnlaugsdóttir. Húsið verður opið til kl. 16.00 þennan dag og sýningin stendur fram til 7. janúar 2020.

Sýningin ber heitið Brák eftir fóstru Egils Skallagrímssonar og þar er velt upp spurningunni um hvað sagan um Brák þýðir fyrir sjálfsmynd kvenna og hugmyndina um kvenleika á Íslandi.  Þar gefur að líta breitt svið listrænnar tjáningar; leirlist, stór akrýl- og vatnslitaverk, krosssaum, innsetningu og skúlptúr.

Elísabet Haraldsdóttir er fædd og uppalin í Reykjavík, er búsett á Hvanneyri. Hún stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Universität der Angewandte Kunst í Vínaborg auk þess að hafa kennsluréttindi frá LHÍ. Hún hefur tekið þátt í fjöldamörgum einka- og samsýningum bæði hérlendis og erlendis. Elísabet hefur verið í samstarfi um rekstur Gallerís Langbrókar og Gallerís Meistara Jakobs auk stundakennslu við Myndlista- og handíðaskólann og kennslu og skólastjórnun á Hvanneyri. Hún var menningarfulltrúi á Vesturlandi í 13 ár, samhliða þess að sinna leirlistinni.

Harpa Einarsdóttir er fædd og uppalin í Borgarnesi. Hún útskrifaðist sem fatahönnuður úr LHÍ árið 2005 og starfar sem listamaður undir nafninu Ziska. Hún hefur unnið við margvísleg skapandi verkefni í gegnum árin og haldið nokkrar einkasýningar á verkum sínum og tekið þátt í fjölda samstarfsverkefna og listahátíða. Harpa hefur einnig starfað við kvikmyndagerð og  búningahönnun en einbeitir sér nú alfarið að myndlist og hönnun fyrir MYRKA.

Ingibjörg Huld Halldórsdóttir er fædd og uppalin í Borgarnesi og Stafholtstungum. Hún lærði arkitektúr og skipulag í Lyon í Frakklandi og við Listaakademíuna í Kaupmannahöfn, en hefur einbeitt sér að listsköpun síðustu ár. Hún hefur tekið þátt í fjölmörgum einka- og samsýningum í Danmörku og hér heima. Ingibjörg vinnur með faldar eða bannaðar tilfinningar, skömm, misnotkun og fráhverfingu í myndverkum sínum.

Ósk Gunnlaugsdóttir er fædd og uppalin í Reykjavík með annan fótinn í Grímsnesinu. Hún lauk BA í myndlist frá Listaháskóla Íslands og starfar nú sem myndlistakona í Reykjavík. Ósk vinnur með málverkið sem miðil á óhefðbundinn hátt. Blandar saman hefðbundnum burðarefnum málverksins og silkiprentsins. Leysir hörinn undan klöfum hins tvívíða forms blindrammans, stífar hann og mótar þar til hann verður að sínu eigin burðarvirki. Beygður, bugaður, beyglaður, kraminn, kreystur og knúsaður fær hörinn þrívítt form sem verður jafnvel að skúlptúr. 

Ljósmynd (Guðlaug Dröfn Gunnarsdóttir): Frá vinstri, Elísabet, Ósk, Ingibjörg og Harpa.

Categories:

Tags:

Comments are closed