Skyldur héraðsbókasafns eru margvíslegar og sumar einkar skemmtilegar. Síðastliðinn föstudag fór Sævar ingi Jónsson héraðsbókavörður í leikskólann Klettaborg í Borgarnesi til að afhenda þar lánþegaskírteini  til ungra lesenda.  Tilefnið var dagur læsis og bókasafnsdagurinn 8. september.  Héraðsbókasafnið hefur um nokkurt skeið afhent leikskólabörnum lánþegaskírteini með formlegum hætti.  Þess má einnig geta að síðastliðin tíu ár hefur einnig verið farið með svokallað bókakoffort í leikskólana og er markmiðið að auka aðgengi barnanna og foreldra þeirra að bókum og hvetja foreldra til að lesa fyrir börn sín. Í leiðinni er minnt á bókasafnið og hlutverk þess.

Framkvæmdin er með þeim hætti að útbúið er bókakoffort í fallegum litríkum kassa.  Koffortið flakkar um deildir leikskólans og hverju barni gefinn kostur á að velja sér eina til tvær bækur í senn til að taka með heim og hafa í vikutíma.  Skemmst er frá því að segja að bókakoffortinu hefur verið afskaplega vel tekið, bæði af börnum og foreldrum þeirra.  Er starfsfólki skólanna þakkað gott samstarf um þetta verðuga verkefni.   –   Ljósmynd: Frá afhendingu skírteinanna/Guðbjörg Hjaltadóttir.

Categories:

Tags:

Comments are closed