Eins og fram kemur hér annars staðar á síðunni er Safnahús Borgarfjarðar í eigu sveitarfélagsins Borgarbyggðar, með þjónustusamningum við nágrannasveitarfélögin Hvalfjarðarsveit og Skorradalshrepp. Byggðaráð Borgarbyggðar annast menningarmál og er jafnframt stjórn safnanna fimm sem í húsinu eru.  Safnahús er staðsett í gamla miðbæ Borgarness, þar er héraðsbókasafn og skjalasafn og tvær grunnsýningar byggða- og náttúrugripasafns, hannaðar af Snorra Frey Hilmarssyni.

Byggðaráð hefur nú boðað mögulegar róttækar breytingar á safnastarfinu og var eftirfarandi bókað á fundi ráðsins þann 24. ágúst s.l.:

„Umræða um safnamál í Borgarbyggð. Byggðarráð ræddi stöðu safnamála í Borgarbyggð í víðu samhengi. Rætt um að fá óháðan fagaðila í safnamálum til að vinna að framtíðarskipan safnamála í Borgarbyggð. Sveitarstjóra falið að vinna áfram að málinu.“

Í framhaldi af þessu kom formaður byggðaráðs í Safnahús og skýrði málin fyrir starfsfólki. Þar kom fram að verið er að skoða þann kost að selja húsnæði safnanna við Bjarnarbraut. Er þá m.a. verið að horfa til þess að meiri tekjur vantar í rekstur Hjálmakletts í Borgarnesi, það hús var byggt árið 2007 og hýsir m.a. starfsemi Menntaskóla Borgarfjarðar. Byggingin var dýr og hefur verið sveitarfélaginu mjög kostnaðarsöm, ekki síst vegna stórra rýma í kjallara, sem nýtast illa. Auk þess að flytja héraðsbókasafnið í opið rými í húsinu er horft til þess að starfsemi héraðsskjalasafnsins flytjist í kjallara hússins. Hvað hin söfnin í Safnahúsi varðar á m.a. að skoða að byggðasafn og náttúrugripasafn flytjist að Hvanneyri, en listasafni Hallsteins Sveinssonar yrði ætlað sýningarrými í í opnum rýmum í Hjálmakletti. Ekki hefur verið upplýst um hvað gera skuli í vörslumálum Safnahúss ef af þessu verður, en söfnin búa yfir gríðarlega miklum safnkosti. Fyrirhugað er að fá óháðan fagaðila til starfa, til að skoða þessar leiðir.

Starfsfólk Safnahúss hefur lýst áhyggjum sínum vegna málsins og sendi frá sér eftirfarandi minnisblað til sveitarstjórnar:  

Áratugum saman hefur safnastarfsemi í Borgarfirði verið undir sama þaki og sömu stjórn sem hluti af Safnahúsi Borgarfjarðar. Húsið starfar samkvæmt Menningarstefnu Borgarbyggðar sem síðast var endurskoðuð árið 2014 og síðustu ár hefur byggðaráð verið stjórn þess sem nefnd menningarmála. Starfið hefur verið farsælt og leitt af sér ótal verkefni sem komið hafa samfélaginu til góða.

Nú liggur fyrir ályktun sveitarstjórnar um að kanna hvort gera þurfi róttækar breytingar á ytri aðstæðum safnanna. Okkur hefur verið tjáð að af ýmsum ástæðum gæti sveitarfélagið í náinni framtíð verið knúið til að selja Safnahús, sundra söfnunum og flytja þau annað. Skýrt hefur komið fram að ástæðan er ekki óánægja með starfsemina heldur komi þetta til vegna vegna utanaðkomandi vanda.  

Nú fer í gang endurskoðun menningarstefnu með áherslu á safnamál. Setja á þá vinnu strax í gang og ljúka nú á haustdögum. Við þá afdrífaríku ákvörðun sem tekin verður að henni lokinni er gríðarlega mikilvægt að gæði safnastarfs njóti sannmælis.

Starfsemi Safnahúss hefur verið öðrum sveitarfélögum fyrirmynd. Nýjar leiðir hafa verið farnar í miðlun og starfsemin hefur gefið mikið af sér. Húsið er vel staðsett í Borgarnesi, í þjónustukjarna héraðsins. Þangað á fólk því alltaf leið, bæði íbúar og brottfluttir. Rétt er að taka vara við því að breyta þessu fyrirkomulagi nema menn telji það til ótvíræðra heilla fyrir þaðstarf sem þarna fer fram.

Söfnin eru héraðseign og margir hafa komið að uppbyggingu þeirra og velferð, bæði félagasamtök og einstaklingar. Þau eiga sér því djúpar rætur í héraðssálinni.

Við sem gerst þekkjum til safnanna minnum á að í sögu svæðis og miðlun hennar eru ómetanleg verðmæti fólgin. Leita þarf því allra leiða til að skerða þau ekki vegna tímabundinna vandamála. Segja má að söfnin búi við góðar aðstæður í dag þótt opnunartími sé skammur og fá stöðugildi. Nánd þeirra hvert við annað hefur skapað tækifæri til nýrra leiða í miðlun. Samfélagslegt hlutverk Safnahúss verður ekki sett á vogaskálar og metið í krónum og aurum.

 

Categories:

Tags:

Comments are closed