Byggðasafn Borgarfjarðar hefur tekið við merkum grip, skáp sem smíðaður var af Helga Helgasyni bónda í Vogi á Mýrum. Helgi var fæddur sama ár og Skaftáreldar hófust, eða 1783. Hann vann við smíði skápsins árið 1829 þegar hann lá í veri við selveiðar í Hvalseyjum við Mýrar og mun sjálfskeiðungur hans hafa verið eitt helsta smíðatólið. Helgi lést árið 1851. Þá bjó Helgi (1822-1883) sonur hans áfram í Vogi ásamt konu sinni Soffíu Vernharðsdóttur (1829-1869).

Fjölskylda
Helgi og Soffía áttu alls níu börn og komust fimm þeirra upp.  Þar á meðal var Rannveig Sigríður sem gift var Árna Bjarnasyni og bjuggu þau í Vogi. Skápurinn var þar hjá þeim þar til þau brugðu búi og fluttust til Reykjavíkur árið 1917.  Rannveig og Árni bjuggu þar til að byrja með að Tjarnargötu 8, en fluttu árið 1933 til Sigurborgar dóttur sinnar á Brávallagötu 22. Þá var skápurinn farinn að láta nokkuð á sjá og var því málaður á ný í sama horfi og hann hafði áður verið. Það gerði Friðrik Guðjónsson (faðir Guðjóns Friðrikssonar, sagnfræðings) en hann mun hafa verið náfrændi Lilju Sigurðardóttur (1909-1997) sem var fósturdóttir Rannveigar og Árna. Eftir endurnýjun lífdaga var skápurinn fluttur aftur að Vogi en þau Guðrún Árnadóttir systir Rannveigar og Sigurður Einarsson höfðu þá tekið þar við búi nokkrum árum áður.

Þar stóð skápurinn allt til 1956, en þá hættu þau Guðrún og Sigurður búskap og fluttu að Skólatröð 8 í Kópavogi og skápurinn með. Þar var hann stofuskápur eins og hann mun alla tíð hafa verið, notaður fyrir sparistellið og allt fínasta stássið. Meðal annarra gripa sem þar voru geymdir var forláta silfurskál sem notuð var undir eðal „frómasa“ og aðra hátíðareftirrétti, en nú síðustu árin hefur hún sómt sér vel sem skírnarskál fyrir nokkra afkomendur Guðrúnar og Sigurðar.

Skápurinn færður safninu
Skápurinn kom í Borgarnes 15. september s.l. og var fluttur þangað af fjölskyldunni. Gefandinn og jafnframt síðasti eigandi skápsins er Rannveig Sigríður Sigurðardóttir dóttir Guðrúnar og Sigurðar,  fædd í Vogi 26. júní 1920. Hún sótti Safnahús heim við þetta tækifæri og skoðaði sýningarnar sem þar eru, ásamt Sigrúnu Stefánsdóttur systurdóttur sinni, dætrum sínum Sigurborgu og Guðrúnu Elísabetu Gunnarsdætrum og tengdasyni, Heiðari R. Harðarsyni. Fram kom í máli Rannveigar að Guðrún móður hennar hefði alla tíð talað um að skápurinn ætti einhverntíma að fara á safnið.

Merk saga hússins í Vogi
Þess má geta að húsið í Vogi á sér mjög merka sögu og í því stóð skápurinn lengst af. Húsið er með elstu timburhúsum á landinu og var upphaflega reist á Arnarstapa á árunum 1774—1787 sem íbúðarhús fyrir Hans Hjaltalin verslunarstjóra einokunarverslunarinnar. Árið 1787 var einokun afnumin og keypti Hans Hjaltalín þá eigur verslunarinnar bæði á Arnarstapa og á Búðum. 1820 varð hann gjaldþrota og Bjarni Thorsteinsson amtmaður keypti húsið árið 1822 og breytti því í amtmannsssetur. Fæddist þar meðal annars sonur hans, Steingrimur Thorsteinsson skáld. Árið 1849 var Bjarni orðinn blindur og flutti til Reykjavíkur og árið 1856 er húsið selt áðurnefndum Helga Helgasyni bónda í Vogi, sem flutti það þangað á skipi sem hann hafði smíðað sjálfur og hét Vogskeiðin.  Þar stóð húsið í heila öld, alltaf í eigu ættmenna Helga, þar til búskapur lagðist niður í Vogi. Húsið stóð þá autt og yfirgefið í tæp þrjátíu ár uns Hjörleifur Stefánsson arkítekt stóð fyrir björgun þess. Húsið var tekið niður 1983 og varðveitt um tíma á Korpúlfsstöðum þar til það var endurreist á Arnarstapa 1985 og prýðir nú staðinn.

 

Helstu heimildir:
Rannveig  Sigríður Sigurðardóttir, 2017. 
Borgfirzkar æviskrár IV bindi, 1975.
Morgunblaðið 8. sept. 1985: viðtal við Hjörleif Stefánsson, bls. 2B

Ljósmyndir: Heiðar R. Harðarson og Guðrún Jónsdóttir.

Mynd 1 (HRH): Sigurborg og Guðrún Elísabet Gunnarsdætur við skápinn, Guðrún Jónsdóttir forstöðumaður Safnahúss lengst til hægri.
Mynd 2 (HRH): sjá má ártalið neðst á skápnum.
Mynd 3 (GJ): Rannveig Sigríður Sigurðardóttir ásamt systurdóttur sinni Sigrúnu Stefánsdóttur.

Þakkir: Sigrún Stefánsdóttir.

Categories:

Tags:

Comments are closed