Mánudaginn 4. maí verður Safnahús opnað aftur eftir lokun frá þriðjudeginum 24. mars vegna sóttvarna. Á þeim tíma hefur stofnunin daglega miðlað fróðleik gegnum Facebook síðu sína og hefur því verið vel tekið. Hafa þar verið rifjaðar upp góðar stundir og verkefni frá liðnum tíma.  Ein slík stund varð í lok febrúar s.l. og varðar starfsemi Héraðsskjalasafnsins, en þar eru m.a. varðveitt einkaskjalasöfn fólks.  Aðgangur að einkaskjalasöfnum er almennt opinn en hægt er að setja skilyrði um aðgengi ef gögnin innihalda viðkvæmar persónuupplýsingar. Þá gilda ákvæði upplýsingalaga um að persónuleg gögn séu lokuð í 80 ár frá dagsetningu bréfs. Einnig geta einkaðilar leyft aðgang að skjölum eftir ákveðinn tíma eins og gert var á sínum tíma með gögn frá Oddsstöðum í Lundarreykjadal.

 Í lok febrúar s.l. mætti á héraðsskjalasafnið hópur afkomenda Sigurðar Bjarnasonar (1883-1960) og Vigdísar Hannesdóttur (1882-1977) á Oddsstöðum til að opna lítinn skjalaböggul sem hafði verið afhentur á safnið árið 1981 með því fororði að hann yrði lokaður til ársins 2020. Varð úr þessi hinn skemmtilegasti atburður þar sem afkomendurnir mæltu sér mót við Jóhönnu Skúladóttur héraðsskjalavörð, opnuðu böggulinn, skoðuðu innihald hans og ræddu um gamla tíma. 

Barnabörn Sigurðar Bjarnasonar og Vigdísar Hannesdóttur Oddsstöðum: Sigurður Guðjónsson, Bjarni Guðjónsson, Vigdís Guðjónsdóttir, Olgeir Helgi Ragnarsson, Sigrún Kristjánsdóttir.

 

 

 

Categories:

Tags:

Comments are closed