Sigríður Beinteinsdóttir frá Grafardal í Hvalfjarðarstrandarhreppi (nú Hvalfjarðarsveit) lést í vikunni, á 96. aldursári. Sigríður var fjórða í röð átta systkina sem öll eru nú látin. Systkinin öll voru skáldmælt og út hafa komið ljóðabækur eftir sex þeirra. Í bókinni Raddir dalsins má finna kveðskap þeirra allra.
Einsog kunnugt er, var á Degi íslenskrar tungu opnuð sýning á verkum Halldóru B. Björnsson, systur Sigríðar, í tilefni af aldarafmæli hennar. Á sýningunni sem stendur enn má líka finna bækur systkina hennar. Sigríður, sem bjó lengst ævi sinnar á Hávarsstöðum í Leirársveit (tilheyrir nú Hvalfjarðarsveit) ásamt Jóni Magnússyni manni sínum, sendi frá sér tvær ljóðabækur; Komið af fjöllum kom út árið 1984 og Um fjöll og dali árið 1990. Hörpuútgáfan á Akranesi gaf bækurnar út eins og raunar fleiri bækur systkinanna.
Á nýju bókamerki Safnahúss Borgarfjarðar sem Guðrún Jónsdóttir forstöðumaður hannaði og prentað var fyrst í lok síðasta árs, er eftirfarandi vísa Sigríðar birt, en vísuna orti hún um bókina Samastað í tilverunni eftir Málfríði Einarsdóttur frá Munaðarnesi.
Sjaldan betri bók ég fékk
bjástur fólksins skildi
í anda með þér götur gekk
gjarnan þakka vildi.
Við andlát systur sinnar Halldóru, orti Sigríður fallegt kvæði sem heitir Systurkveðja og birt var í tímaritinu 19.júní 19.tbl árið 1969 bls 11. Smellið hér til að lesa kvæðið.
Aðstandendum öllum er vottuð samúð vegna fráfalls Sigríðar Beinteinsdóttur.
Comments are closed