Hallsteinn Sveinsson, mynd tekin 1988 (Þorfinnur Sigurgeirsson).

Á alþjóðlega sem og íslenska safnadaginn, laugardaginn 18. maí næstkomandi verður opnuð ný listsýning í Safnahúsi. Þar verða sýnd valin verk úr safnkosti Listasafns Borgarness sem  var stofnað utan um gjöf listvinarins Hallsteins Sveinssonar (1903-1995). Sýningarstjóri er Helena Guttormsdóttir myndlistarmaður. Í Safnahúsi er reglubundið sýnt úr safnkosti Listasafnsins og var það síðast gert 2013 þegar 110 ár voru liðin frá fæðingu Hallsteins. Einnig er fjöldi verka að staðaldri til sýnis í opinberum stofnunum og fyrirtækjum á starfssvæði safnsins og nokkur verk í Safnahúsi (Tolli, Tryggvi Ólafsson, Júlíus Axelsson, Jóhannes Kjarval, Hafsteinn Austmann ofl.). Einnig var opnuð vefsýning á 14 verkum Júlíusar Axelssonar á heimasíðu Safnahúss árið 2018 og má sjá hana með því að smella hér. Safnið lánar af og til verk á sýningar til annarra listasafna s.s. Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur o.fl. Nýverið gerði Safnahús myndbirtingarsamning við Myndstef og nú má sjá ljósmyndir af öllum verkum Listasafnsins á www.sarpur.is

Hallsteinn gaf mikið og verðmætt listaverkasafn sitt til Borgnesinga árið 1971 og bætti all nokkru við þá gjöf síðar. Sérstaða þess er myndlist frá árinum 1940-1960 eftir marga þekkta listamenn þjóðarinnar og eru verkin í römmum smíðuðum af Hallsteini. Í dag starfar safnið í minningu og samkvæmt hugsjónum hans um veigamikið hlutverk listarinnar í þágu samfélagsins. 

Sýningin verður opnuð kl. 13.00 á opnunardaginn og verður opin til 17.00 þann dag. Eftir það verður hún opin á afgreiðslutíma Héraðsbókasafnsins virka daga 13-18, en þess utan á sama tíma og grunnsýningar hússins, um helgar og á hátíðisdögum 13-17. Sýningin er megin sýningarverkefni Safnahúss í ár og stendur fram til loka september.

Categories:

Tags:

Comments are closed