Júlíus (Júlli) Axelsson fæddist 12. september 1937 á Borg á Mýrum. Foreldrar hans voru Axel Kristjánsson og Ingibjörg Jónsdóttir.  Hann ólst upp hjá þeim að Þorsteinsgötu 19 í Borgarnesi. Móðir hans lést árið 1970 þá 63 ára gömul og bjuggu feðgarnir tveir saman eftir það á Þorsteinsgötunni. Eftir nám í barnaskóla vann Júlli ýmis verkamannastörf, m.a. hjá Borgarneshreppi og Loftorku. Síðar á starfsævinni vann hann í Fjöliðjunni við Kveldúlfsgötu. Júlli tók þátt í starfi nokkurra félaga í Borgarnesi, m.a. Verkalýðsfélagi Borgarness, Alþýðubandalaginu í Borgarnesi og nærsveitum og Íþróttafélaginu Kveldúlfi. Hann ferðaðist líka mikið, bæði innanlands og utan, m.a. til Grænlands og með Bændaferðum til Evrópulanda. Þá fór hann í bílferðir með föður sínum á Volkswagen bjöllu hans um Borgarfjarðarhérað og víðar. 

Júlíus var mikill Borgnesingur og fylgdist grannt með öllum framkvæmdum í bænum sem hann skráði í dagbækur sínar. Skrif hans birtust í Kaupfélagsritinu sem Kaupfélag Borgfirðinga gaf út um tæpt þrjátíu ára skeið. Skráningar hans eru mikilvægar heimildir um uppbyggingu Borgarness á 20. öld.

Hann málaði líka myndir frá Borgarnesi og víðar og eru margar þeirra varðveittar í Safnahúsi.

Júlíus er þó sennilega kunnastur fyrir ljósmyndir sínar. Hann sótti nær alla viðburði sem fram fóru í Borgarnesi á síðari hluta 20. aldar og eftir aldamót, og var alltaf með myndavélina við hönd. Ef framkvæmdir voru þar sem  hús var rifið eða reist, eða gata malbikuð, var hann mættur með myndavélina. Ljósmyndir hans veita því skemmtilega innsýn í húsasögu, mannlíf og framkvæmdir. Mörgum bæjarbúum þótti vænt um Júlla.  Hann bjó síðustu árin sín í Brákarhlíð sem er heimili fyrir aldraða í Borgarnesi og lést þar 79 ára að aldri 4. febrúar 2016.

Árið 2017 var 150 ára afmælis Borgarness minnst. Við það tækifæri var sett upp sýning í Safnahúsi á ljósmyndum fjögurra ljósmyndara og var Júlíus einn þeirra. Hinir voru Friðrik Þorvaldsson, Einar Ingimundarson og Theodór Kr. Þórðarson. Sýningin var opnuð á afmælisdeginum sjálfum 22. mars og stóð allt fram ársloka.

Ljósmynd efst: Júlíus í einni af heimsóknum sínum í Safnahús árið 2013. Í baksýn er hluti sýningar um Hallstein Sveinsson,  myndir sem listamenn í vinahópi Hallsteins gerðu af honum.  Júlli skoðaði sýninguna af athygli enda hafði hann gott auga fyrir litum og formum.

Myndataka: Guðrún Jónsdóttir.

Hér má sjá nokkrar myndir af málverkum  og teikningum Júlíusar Axelssonar:

  1. Borgarnes á upphafsárum bæjarins. Kaupangur (Suðurfrá) lengst til vinstri, byggt árið 1878. Pakkhúsið lengst til hægri, byggt 1886 eða 1889.
  2. Borgarbraut. Grísartunga til vinstri, hús Agnars Ólafssonar, Hlíðartún og hús Þórðar Valdimarssonar.
  3. Múlakot, Borgarbraut 49.
  4. Gamla sláturhúsið við Brákarsund.
  5. Óþekkt.
  6. Hús við Borgarbraut. Hjarðarholt (Olgeirshús) fyrir miðju.
  7. Hús Ingimundar Einarssonar (1898- 1992) og Margrétar Helgu Guðmundsdóttur (1893-1977 ) sem nú er Þórólfsgata 4 og er byggt árið 1929. Höfðu þau hjón flutt í Borgarnes á giftingarári sínu 1926 og eignuðust sex syni. Myndin er teiknuð með sjónarhorni frá Borgarbraut. Fyrir framan húsið eru hýbýli Guðmundar Jónssonar pósts sem oft var kallaður Gvendur Th. Þar bjó hann ásamt konu sinni Jónínu Guðrúnu Jónsdóttur og dóttur þeirra Guðlín (sjá Saga Borgarness I, bls 100-101). Það hús var byggt 1920 og var hlaðið úr grjóti á þrjár hliðar. Þakið var flatt og gert úr bárujárni. Húsið var skráð sem skúr í fasteignamati á byggingarárinu. Það stóð í brekkunni fyrir neðan hús Ingimundar og Margrétar Helgu, fyrir ofan bílastæðið sem þar er nú, milli Borgarbrautar 28 og 30.
  8. Arabía við Egilsgötu.
  9. Þorkelssteinn, hús Guðrúnar Bergþórsdóttur. Útihús frá Svarfhóli í baksýn.
  10. Horft út Böðvarsgötu að gatnamótum við Borgarbraut. Húsið fremst á myndinni er Böðvarsgata 2. Húsin tvö, lengst til vinstri eru Þorsteinsgata 19 og 21. Þá er Borgarbraut 47 (Grísartunga), Borgarbraut 46 (hús Inga Ingimundarsonar), Borgarbraut 48 (hús Þórðar Valdimarssonar), Borgarbraut 49 (Múlakot) og Borgarbraut 50 (hús Agnars Ólafssonar). 
  11. Heimili Júlla við Þorsteinsgötu.
  12. Framkvæmdir við Þorsteinsgötu, Grísatunga í baksýn.
  13. Horft út Þorsteinsgötu og inn Böðvarsgötu, tvíbýlishús við Böðvarsgötu lengst til hægri, Grísatunga vinstra megin með grænu þaki.
  14. Hús við Egilsgötu, nú horfin.