Á morgun (5. maí) kl. 12.00 verða tónleikar í sal sýningarinnar Börn í 100 ár og eru þeir á vegum Tónlistarfélags Borgarfjarðar sem nú fagnar 50 ára farsælum starfsferli. Þar mun Birgir Þórisson leika létta tónlist á barónsflygilinn, elsta flygil landsins. Barónsflygillinn er nefndur svo eftir eiganda sínum Charles Gouldrée-Boilleau) sem var aðalsmaður frá Frakklandi sem kom hingað til Íslands í lok 19. aldar. Hann rak stórt bú á Hvítárvöllum um tíma og hefur oft verið kallaður Baróninn á Hvítárvöllum. Hann lék á selló sjálfur en hefur að öllum líkindum flutt flygilinn til landsins til að geta spilað með öðrum hljóðfæraleikurum. Nokkuð er vitað um sögu hljóðfærisins sem líklega hefur verið selt á uppboði eftir að baróninn fór frá Íslandi um aldamótin 1900.  Meðal annars segir Árni Thorsteinsson tónskáld og ljósmyndari frá því að hann hafi leikið á flygilinn í Reykjavík um 1910.  Hljóðfærið var síðan lengi í eigu Kristínar V. Ólafsdóttur (1897-1952) konu E. Chouillou kaupmanns, en hún hafði lært píanóleik í Reykjavík og lék listilega á hljóðfærið. Vitað er að hljóðfærasmiðurinn Otto M. Heitzmann gerði við hljóðfærið árið 1932, en þá rak hann viðgerðaverkstæði fyrir hljóðfæri í Reykjavík.

Síðasti eigandi flygilsins var Auður Stefánsdóttir (1923-2011) sem gaf safninu hann árið 1956. Var hann fyrst í umsjón Þjóðminjasafnsins en kom í Borgarnes 1971. Auður var menntaður píanóleikari og kenndi einnig á píanó. Barónsflygillinn er framleiddur hjá Hornung & Möller í Kaupmannahöfn árið 1863.  

Það er vel við hæfi að Birgir Þórisson komi fram á þessum hátíðisdegi hjá Tónlistarfélagi Borgarfjarðar því hann hóf nám sitt við Tónlistarskóla Borgarfjarðar ungur að árum og er því góður fulltrúi þeirra framúrskarandi nemenda sem þar hafa lært.

Á myndinni sést Kristinn Leifsson píanóstillari undirbúa flygilinn fyrir tónleikana.

Categories:

Tags:

No responses yet

Leave a Reply