Laugardagsopnun verður á Hvítárbrúarsýningunni laugardaginn 2. mars n.k. kl. 13-16. Helgi Bjarnason verður á staðnum og veitir leiðsögn. Helgi átti á sínum tíma frumkvæði að þessu verkefni og annaðist efnisöflun, ritun og val á ljósmyndum fyrir sýninguna. Eru honum þökkuð vönduð og góð störf. Sýningin var opnuð á 90 ára afmælisdegi brúarinnar 1. nóvember 2018 og aðsóknin hefur sannað að brúin á sér stað í hjarta landans, ekki síst Borgfirðinga og Mýramanna. Sýningin er tileinkuð minningu Þorkels Fjeldsted bónda í Ferjukoti sem lést langt fyrir aldur fram árið 2014. Þorkeli var afar annt um að miðla sögu Hvítárbrúarinnar og bjó í grennd hennar alla tíð. Hann var mörgum kunnur og mikill þekkingarbrunnur um brúna svo og hlutverk Hvítárinnar í lífi fyrri kynslóða, þar sem hún var í senn nægta brunnur og erfiður farartálmi.

Ljósmynd:
Helgi Bjarnason ásamt fjölskyldu sinni við opnun sýningarinnar 1. nóvember s.l.

Categories:

Tags:

Comments are closed