Vikan verður viðburðarík í Safnahúsi. Fimmtudaginn 14. mars verður myndamorgunn á vegum Héraðsskjalasafns kl. 10.00, þar sem gestir aðstoða við greiningu ljósmynda. Sama dag kl. 19.30 flytur Dr. Ástráður Eysteinsson prófessor fyrirlestur um skáldið og Borgfirðinginn Þorstein frá Hamri.  Laugardaginn 16. mars kl. 13.00 verður svo opnuð sýning á verkum Josefinu Morell, sem er ung borgfirsk myndlistarkona af sænsku og spænsku bergi brotin.

Ástráður Eysteinsson

Dr. Ástráður Eysteinsson bjó á æskuárum sínum í Borgarnesi og hefur alla tíð haldið sterkum tengslum við heimaslóðirnar. Hann hefur starfað við Háskóla Íslands um árabil og er höfundur fjölda rita og greina á sviði bókmennta en hefur einnig fengist við bókmenntaþýðingar. Hann hefur verið gistiprófessor við erlenda háskóla og er virkur í alþjóðlegri rannsóknasamvinnu, auk þess að hafa sinnt margskonar stjórnunarstörfum við Háskóla Íslands. Þar var hann forseti Hugvísindasviðs frá tilurð þess 2008 til ársloka 2015.

Þorsteinn frá Hamri

Þorsteinn frá Hamri fæddist 15. mars 1938 að Hamri í Þverárhlíð og átti þar sín bernsku- og unglingsár. Hann er þekktastur fyrir ríkt safn ljóða, en hann samdi einnig þrjár mikilvægar skáldsögur á umbrotaárum í íslenskri frásagnarlist, fékkst við íslenska sagnageymd og þjóðleg fræði auk þess að þýða ýmis erlend skáldverk á íslensku. Hann er eitt mikilvægasta ljóðskáld íslenskra bókmennta fyrr og síðar og afburðaþekking og tök hans á íslenskri tungu eru víðkunn.

Fyrirlestur Ástráðs hefur fengið heitið Þegar fjarskinn kemur til fundar – Um ljóðlist Þorsteins frá Hamri.

Josefina Morell

Myndlistarkonan Josefina Morell nefnir sýningu sína Litir Borgarfjarðar og er það sannarlega réttnefni því verk hennar eru unnin í nánum tengslum við náttúru svæðisins. Josefina er fædd árið 1975 í Svíþjóð, móðir hennar er sænsk og faðir hennar spænskur. Hún býr á Giljum í Hálsasveit og kom til Íslands árið 1998 til að vinna við tamningar. Hún vann við það fyrstu árin en er nú skólabílstjóri og rekur hestaleigu á Giljum ásamt manni sínum Einari Guðna Jónssyni.  Jörðina keyptu þau árið 2006 og þar búa þau með þrjú börn.

Josefina hefur alltaf haft áhuga á dýrum, útivist og handverki. Hún lærði matseld og búfræði áður en hún kom til Íslands. Veturinn 2003-2004 fór hún til Svíþjóðar í lýðháskóla, þar sem hún kynnti sér m.a. gamla tækni við að vinna úr tré en kynntist jafnframt keramiki, eldsmíði o.fl.

Josefina hefur tekið þátt í nokkrum samsýningum og var með einkasýningu á Hvanneyri s.l. sumar. Í myndlistinni hefur hún gaman af að prófa sig áfram með allskonar efnivið og leggur áherslu á að vinna sem mest með náttúruleg efni sem hún finnur í næsta nágrenni. Gjarnan er það eitthvað sem talið er hálf verðlaust en samt hægt að búa til eitthvað úr. Hún hefur m.a. verið að týna steina í nærumhverfi Gilja, meðfram Reykjadalsánni og í giljunum í grennd við Húsafell. Hún mylur steinana í mortéli og blandar hörolíu og þynni saman við duftið til að fá olíumálingu. Á sýningunni í Safnahúsi sýnir Josefina fimmtán verk sem máluð eru með þessari sérstöku málningu. Hún hefur einnig notað hana til að skreyta hrútahauskúpur sem hún sauð í hver sl. haust. Josefina spinnur band úr allskonar hári, lambaull, hundahári, tófuhári & kanínufiðu. Úr þessu hefur hún prjónað og þæft húfur sem einnig má sjá á sýningunni.

Categories:

Tags:

Comments are closed