Sýningar ársins 2016
Sýningar á árinu 2016 hafa verið þessar:

Leikið með strik og stafi.  Bjarni Guðmundsson 21. nóvember 2015 – 20. janúar 2016.  
Norðurljós. Ómar Örn Ragnarsson 23. janúar – 29. febrúar.
Beloved Borgarnes. Michelle Bird 5. mars – 8. apríl.
Refir og menn. Sigurjón Einarsson 21. apríl – 11. nóvember.
Ljós og náttúra Vesturlands. Jón R. Hilmarsson 19. nóvember – 31. desember 2016.
Eins og sakir standa eru nú auk grunnsýninga fjórar skemmri tíma sýningar í Safnahúsi.  Fyrsta skal telja ljósmyndasýningu Jóns R. Hilmarssonar. Einnig eru uppi tvær veggspjaldasýningar, annars vegar um franska sjóslysið sem varð við Straumfjörð haustið 1936 þegar rannsóknaskipið fræga Pourquoi pas fórst og hins vegar veggspjöld um Jakob Jónsson á Varmalæk sem var héraðskunnur maður og er minnst fyrir margt verðugt. Heiður Hörn Hjartardóttir hannaði báðar þessar sýningar. Síðast en ekki síst er árlega á aðventu litlu jólatré stillt upp. Það smíðaði Guðmundur Böðvarsson skáld á Kirkjubóli og við hlið þess er frásögn af jólaminningu eftir Böðvar son hans. Tréð stendur á tveimur dúkum sem Ingibjörg Sigurðardóttir eiginkona Guðmundar saumaði.

Helstu verkefni framundan
Sýningarárið 2017 verður helgað 150 ára afmæli Borgarness. Þann 14. janúar verður opnuð sýning á ljósmyndum úr bænum, frá samkeppni sem Safnahús stóð fyrir árið 2016 með stuðningi Beco ljósmyndafyrirtækis o.fl. Var viðfangsefnið bæði mannlíf og umhverfi. Með þátttöku sinni samþykktu myndhöfundar að myndir þeirra fengju inni í Héraðsskjalasafni að lokinni keppni svo hér er einnig á ferðinni verkefni á sviði samtímasöfnunar. Stærsta verkefni ársins er svo sýning sem verður opnuð síðdegis þann 22. mars, en þann dag árið 1867 fékk Borgarnes konunglegt verslunarleyfi úr hendi Kristjáns níunda Danakonungs. Verður það sýning á ljósmyndum frá Borgarnesi á 20. öld eftir fjóra ljósmyndara, þá Friðrik Þorvaldsson (1896-1983), Einar Ingimundarson (1929-1997), Júlíus Axelsson (1937-2016) og Theodór Þórðarson (1952). Hefur sýningin fengið vinnuheitið Tíminn í gegnum linsuna.  Það er Heiðar Lind Hansson sagnfræðingur sem velur myndir og semur texta og Heiður Hörn Hjartardóttir setur sýninguna upp.  Báðar ofangreindar sýningar verða í Hallsteinssal.  Ljósmyndirnar úr Borgarnesi 2016 verða uppi fram til 10. mars og Tíminn í gegnum linsuna stendur út allt árið 2017.  Meðal annarra merkra verkefna á árinu eru uppskerutónleikar samstarfs við Tónlistarskóla Borgarfjarðar undir heitinu  Að vera skáld og skapa. Verða þeir 20. apríl kl. 15.00 og að þessu sinni verður efniviðurinn ljóð eftir Halldóru B. Björnsson.  Ýmis önnur verkefni verða á dagskrá Safnahúss árið 2017.

Á árinu 2018 eru þegar bókaðar fjórar sýningar í Hallsteinssal auk þess sem þess verður minnst að það ár verða 90 ár liðin frá byggingu Hvítárbrúarinnar við Ferjukot.

Grunnsýningar Safnahúss eru tvær, Börn í 100 ár og Ævintýri fuglanna.  Draga þær árlega til sín mikinn fjölda gesta og eru mikilvægar í safnfræðslu fyrir skóla í héraði, nágrannasveitarfélögum og víðar. Þær eru báðar hannaðar af Snorra Frey Hilmarssyni leikmyndahönnuði og flokkst undir sjálfstæð listaverk í frásagnarmáta sínum.

Saga Borgarness væntanleg
Árið 2017 gefur Borgarbyggð út Sögu Borgarness og hefur verið unnið að því verkefni um nokkurra ára skeið í náinni samvinnu við Safnahús, aðallega Héraðsskjalasafn. Höfundar verksins eru tveir, þeir Egill Ólafsson og Heiðar Lind Hansson. Er bókin væntanleg úr prentun í mars 2017 og við gerð hennar hefur verið safnað ómetanlegum munnlegum heimildum.

Ljósmynd: Borgarnes celebrex dosage. Myndataka: Guðrún Jónsdóttir.

Categories:

Tags:

Comments are closed