Um tvö hundruð manns fögnuðu sumri í Safnahúsi í gær þar sem opnuð var ljósmynda sýning Sigurjóns Einarssonar og haldnir tónleikar með ljóðum Snorra Hjartarsonar.  Sýning Sigurjóns, Refir og menn, hlaut mikið lof gesta og verður eflaust vel sótt í sumar. Myndirnar veita einstaka innsýn í líf og umhverfi refaveiðimannsins og sýningin er heilstæð og falleg.

Hluti af opnunarathöfninni fólst í tónleikum þar sem börn úr héraði fluttu eigin tónsmíðar við ljóð Snorra Hjartarsonar skálds.  Þetta er samstarfsverkefni með Tónlistarskóla Borgarfjarðar þar sem áhersla er lögð á listræna sköpun og tjáningu.  Var gerður afar góður rómur að verkum og flutningi listamannanna ungu. Þess má geta að skyldmenni Snorra voru viðstödd flutninginn og voru afar ánægð.

Margt er að gerast í Safnahúsi og var sagt frá nokkru af því í upphafi dagskrár.  Ný heimasíða hefur verið opnuð, ljósmyndasamkeppni sett af stað, fræðslusýning um Pourquoi pas sett upp og frönsk leiðsögn tekin í notkun á sýninguna Börn í 100 ár. Í lokin má geta þess að haförn er nú kominn á sýninguna Ævintýri fuglanna og er það mikill fengur fyrir alla safnfræðslu.

Þessir fluttu ávörp: Guðrún Jónsdóttir forstöðumaður Safnahúss, Jónína Erna Arnardóttir sveitarsjtórnarmaður og tónlistarkennari, herra Philippe O´Quin sendiherra Frakklands og Theódóra Þorsteinsdóttir skólastjóri Tónlistarskólans.

Ljósmyndir frá sýningaropnun og tónleikum: Elín Elísabet Einarsdóttir, Nanna Einarsdóttir og Einar G. G. Pálsson.

Categories:

Tags:

No responses yet

Leave a Reply