Ríkisstjórn Íslands ákvað haustið 1995 að 16. nóvember ár hvert yrði dagur íslenskrar tungu. Var dagurinn valinn vegna þess að hann er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar. Hefur menntamála- og menningarmálaráðuneytið árlega beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls á þessum degi og beinir þar með athygli þjóðarinnar að stöðu tungunnar, gildi hennar fyrir þjóðarvitund og alla menningu.

Í Safnahúsi er dagsins að venju minnst með því að birta fallegt kvæði Snorra Hjartarsonar sem vísar til arfleifðar Jónasar og ber heitið Jónas Hallgrímsson. Snorri var fæddur á Hvanneyri og bjó í Borgarfirði fram á unglingsár, á Ytri Skeljabrekku og í Arnarholti. Eitt einkenni ljóða hans eru friðsælar en litríkar myndir íslenskrar náttúru, en hann var mikill unnandi hennar. 

 

 

Jónas Hallgrímsson

Döggfall á vorgrænum víðum
veglausum heiðum,
sólroð í svölum og góðum
suðrænum blæ.

Stjarnan við bergtindinn bliknar,
brosir og slokknar,
óttuljós víðáttan vaknar
vonfrjó og ný.

Sól rís úr steinrunnum straumum,
stráum og blómum
hjörðum og söngþrastasveimum
samfögnuð býr.

Ein gengur léttfær að leita:
lauffalin gjóta
geymir nú gimbilinn hvíta,
gulan á brár.

Hrynja í húmdimmum skúta
hljóðlát og glitrandi tár.

Kvæði (1944)

Categories:

Tags:

Comments are closed