Einn af fyrstu safngripunum á byggðasafninu eru gleraugu sem bárust safninu á fjórða áratug 20. aldar, tæpum 20 árum áður en safnið er stofnað. Ragnar Ásgeirsson frá Knarrarnesi, bróðir Ásgeirs Ásgeirssonar, hafði ásamt fleiri frumkvöðlum hafið söfnun muna löngu áður en formlegt safn var til staðar.  Gleraugun eru að öllum líkindum 19. aldar smíði, með bandi sem var bundið aftan og undir hnakkann.

Skráður gefandi er Elínborg Ingigerður Sigurðardóttir en gleraugun höfðu verið í eigu móður hennar, Sigurbjargar Jónsdóttur (1852-1925). Sigurbjörg var dóttir vinnuhjúa á Hofi í Vatnsdal og ólst upp hjá vandalausum. Hún giftist Sigurði Finnssyni bónda á Hamri í Borgarhreppi (þar sem nú er golfvöllur) í október 1883, þá rúmlega þrítug. Sigurður var 27 árum eldri og hafði misst fyrri konu sína sama ár. Fyrra hjónabandið með Margréti Ásgrímsdóttur (1813-1883) var barnlaust en Sigurbjörg og Sigurður eignuðust þrjú börn. Elst var Elínborg (f. 1885), sem síðar gaf gleraugun til safnsins, þá Gunnlaugur Karl (1888-1913) og yngst var Margrét sem var fædd árið 1890 en lést aðeins nokkurra vikna gömul.

Sigurbjörg Jónsdóttir missti mann sinn árið 1906 en hélt áfram búskap á Hamri. Árið 1909 giftist hún aftur, Jóhanni Magnússyni sem var fæddur árið 1874 og var því 22 árum yngri en hún. Þau bjuggu á Hamri þar sem Sigurbjörg lést árið 1925, rúmlega sjötug.  Jóhann giftist aftur þremur árum eftir lát konu sinnar, Guðrúnu Bergþórsdóttur (1890-1992). Eftir það tók Kristófer Jónsson frá Valbjarnarvöllum í Borgarhreppi við búskap á Hamri, en hann hafði gifst Elínborgu árið 1924. Þau bjuggu á Hamri til dánardags, Elínborg lést árið 1942 og Kristófer árið 1960.

Samantekt: Guðrún Jónsdóttir. Ljósmyndir: Jenny Johansen og Magnús Ólafsson. (Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar).

Helstu heimildir:
Aðalsteinn Halldórsson o.fl. 1978. Borgfirskar æviskrár V, bls. 171.
Aðalsteinn halldórsson o.fl. Borgfirskar æviskrár VII, bls. 227.
Ari Gíslason o.fl. 1997. Borgfirskar æviskrár X, bls. 73

Þakkir: Gréta S. Einarsdóttir, Lilja Árnadóttir og Jóhanna Skúladóttir.

 

Categories:

Tags:

Comments are closed