Um síðustu helgi var haldið námskeið í Hvítársíðu og Reykholtsdal á vegum Litlu menntabúðarinnar í samstarfi við ýmsa aðila. Viðfangsefnið var ritverk Böðvars Guðmundssonar Híbýli vindanna og Lífsins tré. Farið var um söguslóðir vesturfara í Hvítársíðu, sagðar sögur um hugsanlegar fyrirmyndir bókanna og bankað upp á bæjum og í kirkjum í fylgd heimamanna og skáldsins sjálfs. Námskeiðsgestir dvöldu á Hótel Á á Kirkjubóli, æskustöðvum Böðvars. Safnahús var aðili að þessu ágæta framtaki í formi fyrirlestrar um borgfirska vesturfara og fjölskyldu þeirra og var hann haldinn í Snorrastofu.  Erindið bar heitið Lífsþræðir í tíma og rúmi og var flutt af Guðrúnu Jónsdóttur safnstjóra.  Námskeiðið hófst á laugardagsmorguninn og lauk með gönguferð að eyðibýlinu Suddu eftir hádegið á sunndag.  Nærvera Böðvars Guðmundssonar og nokkrra annarra fjölskyldumeðlima frá Kirkjubóli gaf námskeiðinu sérstakt vægi.  Öll framkvæmd þess var til fyrirmyndar og viljum við koma á framfæri þakklæti til helstu aðstandenda þess sem voru Ingibjörg Kristleifsdóttir, Ingibörg Danielsdóttir, Ragnar Sigurðsson, Þórunn Reykdal og Halldór Gísli Bjarnason.  Um þarft og gott framtak var að ræða sem vekur verðskuldaða athygli á bókmenntaarfi héraðsins.

Á myndinni má sjá Ingibjörgu Kristeifsdóttur lesa upp úr verkinu fyrir námskeiðsgesti í gömlu kirkjunni í Reykholti. Ljósmynd: Guðrún Jónsdóttir.

Categories:

Tags:

Comments are closed