Laugardaginn 28. september kl. 13.00 verður opnuð ný myndlistarsýning í Hallsteinssal.  Nefnist hún Litabækur og litir  og er fyrsta einkasýning Önnu Bjarkar Bjarnadóttur sem annars starfar sem framkvæmdastjóri hjá Advania en er einnig íþróttafræðingur fyrir utan að hafa sótt nám í myndlist og stundað hana eftir föngum.  Anna er fædd og uppalin í Borgarnesi og megin uppistaða sýningarinnar eru myndir þaðan.

„Mér finnst ég vera aftur orðin sjö ára þegar ég fer að leika mér með liti og vatn og ég endurupplifi og ferðast um æskuslóðir og minningar með því að mála þær.“

Íbúar og gestir Borgarfjarðar hafa gegnum tíðina verið duglegir að sækja listsýningar í Safnahúsinu og margir listamenn í héraðinu hafa sýnt þar. Hallsteinssalur er kenndur við listvininn Hallstein Sveinsson sem gaf Borgnesingum stórmerkt listaverkasafn sitt á sínum tíma. Þess má geta að salurinn er þegar uppbókaður allt árið 2020. Sjá nánar um Hallsteinssal með því að smella hér.

Sýning Önnu Bjarkar verður opin kl. 13.00-16.00 á opnunardaginn og eftir það 13.00-18.00 alla virka daga fram að 29. október eða á öðrum tímum fyrir hópa eftir samkomulagi. 

Categories:

Tags:

Comments are closed