Í kvöld, þriðjudaginn 1. október verður haldinn í Reykjavík stofnfundur félags sem lagður hefur verið grunnur að undir heitinu Arfur Þorsteins frá Hamri. Þorsteinn var sem kunnugt er frá Hamri í Þverárhlíð og hefur Byggðarráð Borgarbyggðar fylgst með undirbúningi að stofnun félagsins með Safnahúsið sem megin tengilið. Á fundi sínum s.l. fimmtudag lýsti ráðið yfir ánægju með væntanlega stofnun félagsins og vonast eftir góðu samstarfi við það í framtíðinni.

Félagið mun standa fyrir viðburðum, einkum á ævislóðum Þorsteins, í Borgarfirði og á höfuðborgarsvæðinu. Markmið þess er að sýna arfleifð Þorsteins ræktarsemi sem og þeim menningararfi sem hann tók í fang sér. Með verkum sínum fann hann og skapaði ótal tengsl á milli hefða og nýsköpunar, og með því móti varð hann einn af fremstu nútímahöfundum tungumáls sem á sér merka sögu og stendur nú frammi fyrir miklum áskorunum.

Ljóðafjársjóður Þorsteins frá Hamri, sem og skáldsögur hans og önnur verk, bera glöggt með sér að hann var einn mestur völundur íslensks máls fyrr og síðar, en jafnframt djarfur könnuður mannlegra gilda og áskorana í lífi einstaklings og samfélags. 

Í undirbúningshópi vegna verkefnisins eru eftirtalin: Ástráður Eysteinsson,  Guðrún Nordal, Hólmfríður Matthíasdóttir, Hrafn Jökulsson og Laufey Sigurðardóttir auk Guðrúnar Jónsdóttur forstöðumanns Safnahúss.               

Stofnfundurinn verður haldinn í Iðnó – í sal á annarri hæð. Húsið verður opnað kl. 19:30. Fundurinn hefst klukkan 20 og stendur í um klukkustund. Fundarstörf verða krydduð með ljóðum skáldsins. Allir velkomnir.

 

Categories:

Tags:

Comments are closed