Í dag verður opið í Safnahúsi til kl. 20.00. Sett hefur verið upp handsmíðað jólatré eftir Guðmund Böðvarsson skáld á Kirkjubóli og smásagan Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson verður lesin frá kl. 18.00. Sjálfboðaliðar lesa ásamt starfsfólki Safnahúss. Sagan var skrifuð á dönsku og kom fyrst út á þýsku. Hún var síðan þýdd á íslensku af Magnúsi Ásgeirssyni frá Reykjum í Lundarreykjadal árið 1939 og er það sú útgáfa sem verður lesin í kvöld.
Eins og kunnugt er dvaldi Gunnar langdvölum í Danmörku og skrifaði á dönsku. Halldór Kiljan Laxness segir svo í formála útgáfunnar 1939:
„Gunnar markaðist aldrei einkennum útflytjandans, hins vegalausa, áttavillt og upprætta, í þessari löngu hríð, heldur vissi alltaf veðurstöðuna; hann hafði æfinlega af Íslandi bæði fugl og hval, eins og segir um farmenn í gömlum bókum…”
Við bjóðum gesti velkomna til okkar til að hlýða á lesturinn eftir því sem hentar, boðið verður upp á kaffi/te og smákökur.
Comments are closed