Fimmtudaginn 6. desember verður opið til kl. 20.00 í Safnahúsi. Við það tækifæri verður smásagan Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson lesin milli kl. 18 og 20 og er vonast til að einhverjir eigi leið í Safnahús þetta síðdegi til að hlýða á bókmenntir eins og þær gerast bestar.
Aðventa var fyrst lesin í Safnahúsi í fyrra og mæltist vel fyrir. Sagan er lesin af sjálfboðaliðum, í meistaralegri þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar frá Reykjum í Lundarreykjadal. Magnús var fæddur á Reykjum 9. nóv. 1901. Hann vann fyrir sér sem blaðamaður og þingskrifari og var lengi bókavörður við Bókasafn Hafnarfjarðar. Hann var tvíkvæntur, fyrri kona hans var Anna Ólafsdóttir og eignuðust þau þrjár dætur, síðari kona hans var Anna Guðmundsdóttir, dóttir Guðmundar Björnssonar sýslumanns í Borgarnesi og Þóru Leopoldínu Júlíusdóttur. Magnús og Anna Guðmundsdóttir eignuðust eina dóttur.
Aðeins 22 ára sendi Magnús frá sér sína fyrstu ljóðabók og raunar þá einu sem geymdi frumort ljóð. Hún bar heitið Síðkveld en þar mátti einnig finna nokkrar ljóðaþýðingar. Skemmst er frá því að segja að hann lagði þýðingar fyrir sig og þýddi vel yfir 300 hundruð ljóð á sinni ævi. Með þýðingum sínum á mörgum af þekktustu ljóðskáldum heimsins opnaði Magnús dyrnar fyrir yngri skáld og hafði mikil áhrif á þau og kvæðaunnendur alla.
Þýdd ljóð komu út í sex bindum á árunum 1928-1941 og Meðan sprengjurnar kalla árið 1945 en sú bók hefur að geyma ljóðaþýðingar úr norsku og sænsku. Að Magnúsi látnum kom út bókin Síðustu þýdd ljóð sem Guðmundur Böðvarsson bjó til prentunar en bókin var gefin út 9. nóvember 1961 en þann dag hefði Magnús orðið sextugur.
Að auki þýddi Magnús ýmis verk í óbundnu máli, t.d eftir eftir Gunnar Gunnarsson, Leo Tolstoj og Agust Strindberg. Þá eru ótalin ýmis störf að bókmenntum önnur.
Magnús varð bráðkvaddur á heimili sínu í Hafnarfirði 30. júlí 1955 aðeins 53 ára að aldri.
Smásagan Aðventa byggir á sögu Benedikts Sigurjónssonar sem nefndur var Fjalla-Bensi. Hann var frægur fyrir eftirleitir sínar undir jól og með sér hafði hann hundinn Leó og forustusauðinn Eitil. Frásögn af slíkri ferð Benedikts var skráð af Þórði Jónssyni og birtist í Eimreiðinni í janúar árið 1931. Árið 1936 kom Aðventa út í fyrsta sinn og þá á þýsku, ári síðar á dönsku og tveimur árum síðar á íslensku í þýðingu Magnúsar. Eigin þýðing Gunnars á sögunni kom hins vegar ekki út fyrr en árið 1976 eða fjörutíu árum eftir að frumútgáfan kom út.
Jón Kalman Stefánsson rithöfundur skrifar svo um þýðingu Magnúsar á Aðventu í Lesbók Morgunblaðsins 14. janúar 2006:
„Það er unaður að lesa Aðventu á dönsku, frummálinu, og með ólíkindum hversu vel Magnús Ásgeirsson nær að þýða stemninguna sem svo erfitt er að lýsa, en svo auðvelt að njóta. Ég ætla ekkert að flækja málin; þýðing Magnúsar er betri en þýðing Gunnars sjálfs, trúrri frumtextanum, hún er mýkri og einfaldari…“
Samantekt: Guðrún Jónsdóttir.
Ljósmyndir: Magnús Ásgeirsson (Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar).
Vigdís Pálsdóttir kom þeirri hugmynd til Safnahúss að láta lesa Aðventu upp í aðdraganda jóla, en hún vissi að þetta hafði verið gert annarsstaðar. Hún tók þátt í lestrinum í des. 2017. Ljósmynd: Guðrún Jónsdóttir.
Helsta heimild: Sævar Ingi Jónsson. afmælisminning: Magnús Ásgeirsson. www.safnahus.is, skoðað 27. nóv. 2018.
Comments are closed