Um nokkurt skeið hefur í Safnahúsi verið unnið að samantekt á upplýsingum um borgfirska höfunda og hagyrðinga. Hefur víða verið leitað fanga í þessu verkefni enda er það umfangsmikið. Merkur áfangi liggur nú fyrir í nafnalista þar sem sjá má á fimmta hundrað nafna. Listann hefur Sævar Ingi Jónsson héraðsbókavörður sett saman. Sérstakur styrktaraðili verkefnisins er Akkur, styrktar og menningarsjóður VM- Félag vélstjóra og málmtæknimanna sem veitti verkefninu stuðning í upphafi. Eru stjórn sjóðsins færðar miklar þakkir fyrir trú hennar á gildi verkefnsins.  Tekið skal fram að listinn er í vinnslu þótt miklu verki sé lokið og verður það um óákveðinn tíma, hann uppfærist jafnóðum hér á síðunni. Eru ábendingar vel þegnar og sendist á netfangið safnahus@safnahus.is.

Markmið verkefnisins er að taka saman lista yfir skáld og hagyrðinga á starfssvæði Safnahúss (frá Hvalfirði og að Haffjarðará á Snæfellsnesi) fyrr og síðar og setja fróðleik og/eða myndir undir hvert nafn. Eðli málsins samkvæmt er verkið afar viðamikið, en hér lítur fyrsti verkþáttur dagsins ljós. 

Gengið er út frá því að tengsl höfunda við svæðið geti verið með ýmsum hætti en helst er horft til eftirfarandi þátta: fæðingarstaðar, búsetu og  lengri tíma dvalar. Jafnt er horft til skáldskapar, vísnagerðar og fræðiskrifa. Útgáfa er ekki skilyrði þess að nafn höfundar verði sett á listann. Það skal tekið fram að þrátt fyrir ofangreind viðmið verður mat á því hvaða nöfn verða á listanum alltaf að einhverju leyti huglægt og mörkin óljós.

Með þessu verður mikilvægum heimildum um bókmenntasögu Borgarfjarðarhéraðs safnað á einn aðgengilegan stað.  

Í Borgarfjarðarhéraði hefur ætíð verið rík bókmenning. Má þar nefna Júlíönu Jónsdóttur sem fyrst kvenna gaf út ljóðabók, Jón Helgason,  Guðmund Böðvarsson, Kristmann Guðmundsson, Stefán Jónsson og Halldóru B. Björnsson. Einnig má nefna höfunda og skáld fornsagnanna eins og Egil Skallagrímsson og Snorra Sturluson. 

Ljósmynd með frétt: Ljóð eftir Jakob Jónsson á Varmalæk í Bæjarsveit.

Categories:

Tags:

Comments are closed