img_4948Í dag, 7. desember 2016, hefði Jakob Jónsson á Varmalæk orðið 100 ára.  Jakob á víða spor í borgfirskri sögu þar sem lagði ýmis konar samfélagslegum verkefnum lið um ævina. Hann var fæddur á Varmalæk í Bæjarsveit. Foreldrar hans voru Jón Jakobsson og Kristín Jónatansdóttir. Jakob átti alla sína ævi heima á Varmalæk og tók við búskap þar 1946.  Hann var hæfileikaríkur maður, var oddviti Andakílshrepps í mörg ár og gegndi fjölda trúnaðarstarfa fyrir héraðið.  Hann var þekktur fyrir kveðskap sinn, vísur hans voru oft beittar en jafnframt glettnar og afar lipurlega ortar.  Hann hampaði skrifum sínum aldrei og vildi lítið heyra á þau minnst. Svo segir Sigurður Sigurðarson dýralæknir um kveðskap hans og heimsóknir sínar að Varmalæk í héraðsblaðinu Skessuhorni (2014):

 „Í fyrsta sinn, sem ég kom að Varmalæk, var Jakob við píanóið og lék undurvel lög eftir stórmeistara tónlistarinnar. Ég komst að því síðar, að hann samdi sjálfur falleg lög, auk þess sem hann orti ljómandi kvæði og þó sérstaklega lausavísur, sem flugu um héraðið. Sumar þeirra urðu landfleygar strax. Jakob lét þó lítið yfir kveðskap sínum…“

Jakob giftist árið 1946 Jarþrúði G. Jónsdóttur (1925-2010) sem var fædd og uppalin á Grímsstaðaholtinu í Reykjavík. Þau eignuðust sex börn. 

í Safnahúsi var á afmælisdaginn opnuð veggspjaldasýnig um Jakob og er hún hönnuð af Heiði Hörn Hjartardóttur.  Þar má sjá nokkurn fróðleik um hann auk sýnishorna af kveðskap hans, en sumt af honum hefur orðið landfleygt.  Sýninguna prýðir andlitsteikning af Jakobi eftir Pál Guðmundson á Húsafelli og er hún í eigu fjölskyldunnar.  Færir Safnahús börnum Jakobs bestu þakkir fyrir góða samvinnu um þetta verkefni.

 

Categories:

Tags:

Comments are closed