Á morgun, miðvikudaginn 25. júlí kl. 14:00 verður svakamálaleikritið Mæja Spæja eftir Herdísi Egilsdóttur frumflutt víða í bókasöfnum landsins í samvinnu Útvarpsleikhússins og bókasafnanna. Leikritið er ætlað börnum og unglingum. Um er að ræða fyrstu tvo þætti verksins en leikritið sem er í níu þáttum verður flutt í heild sinni á Rás eitt í byrjun ágúst alla virka daga nema föstudaga. Af þessu tilefni verður einnig efnt til litasamkeppni og Mæju spæju blöðrur verða á staðnum. Krakkar, mætum öll á morgun og höldum gleðilegan Mæju spæju dag á bókasafninu!
Á vefnum Rúv.is er meðal annars að finna þetta um leikverkið:
Fyrir börnin – Mæja spæja!
Mæja spæja fær spæjaragræjur í afmælisgjöf. Á sama tíma ræna glæpamennirnir Tómi og Klári tíu milljónum úr Þjóðarbankanum og fela peningana. Mæja spæja er sniðug og athugul stelpa og fer að æfa sig í að spæja með spæjaragræjunum sínum. Leiðir glæponanna og Mæju liggja saman á mjög dularfullan hátt. Tekst Tóma að kaupa sér sportbíl, Playstation þrjú og sólarferð til Benedorm fyrir ránsféð? Tekst Klára að gabba Tóma og verða ríkasti maður á Íslandi? Og síðast en ekki síst, tekst Mæju spæju að spæja svo mikið að hún upplýsi alvöru glæpamál? Þessum spurningum og mörgum öðrum verður svarað í spennuþáttunum um hana Mæju spæju sem flutt verður í Útvarpsleikhúsinu og hvergi annarsstaðar!!!! Leikendur eru Ilmur Kristjánsdóttir, Pálmi Gestsson, Sigurður Sigurjónsson og fleiri.
.
Comments are closed