Í tilefni norræna skjaladagsins laugardaginn 9. nóvember er opnaður vefurinn www.skjaladagur.is. Það eru Þjóðskjalasafn og héraðsskjalasöfnin í landinu sem standa að vefnum og er þema hans að þessu sinni „Fjársjóðir úr fórum skjalasafnanna“. Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar sýnir þar bréf sem Steinunn Stefánsdóttir (1855-1942) í Fíflholtum Hraunhreppi skrifar systur sinni, Ingveldi Stefánsdóttur í Vesturheimi. Í bréfinu segir Steinunn frá gleði og sorgum.  Á skjaladagsvefnum má einnig fræðast um skjaladaginn sjálfan og skjalasöfnin sem að honum standa. Þar er einnig dagskrá um atburði sem söfnin standa fyrir í tilefni dagsins. Á skjaladaginn, verður brugðið upp á vefnum laufléttri getraun úr efni vefjarins og eru verðlaun í boði fyrir rétta úrlausn.