Fimmtudaginn 14. febrúar verður fyrirlestur í Safnahúsi um fjölskylduna og heimilið að Svarfhóli í Stafholtstungum á 19. öld og fram í byrjun 20, aldar. Í þá tíð bjuggu þar hjónin Björn Ásmundsson og Þuríður Jónsdóttir og áttu þau tólf börn. Um Björn er sagt í borgfirskum æviskrám að hann hafi verið mikill dugnaðar- og framkvæmdamaður sem átti frumkvæði að mörgum framfaramálum í sveitinni. Um Þuríði er sagt að hún hafi verið ljósmóðir, stórgáfuð kona og vel hagmælt.  Að sama skapi urðu börn þeirra hjóna atorkufólk og létu að sér kveða í borgfirsku samfélagi síns tíma, þau eiga marga afkomendur á Borgarfjarðarsvæðinu í dag.

Fyrirlesari kvöldsins er fræðimaðurinn Þóra Elfa Björnsson, en hún er einn afkomanda þeirra hjóna. Erindið nefnir hún „Ég hefði fylgt þér‟ og skýrist það í frásögninni.

Þóra Elfa Björnsson (GJ).

Þóra Elfa er búsett í Kópavogi, Hún hefur starfað sem setjari og framhaldsskólakennari en er nú komin á eftirlaun. Hún er komin af Borgfirðingum í báðar ættir, faðir hennar var Karl sonur Guðmundar Björnssonar sýslumanns í Borgarnesi og víðar. Móðir hennar var Halldóra B. Björnsson skáldkona frá Draghálsi þar sem Þóra Elfa dvaldi mörg sumur í sveit hjá móðurforeldrum sínum. Hún hefur oft áður komið að rannsóknum og skrifum fyrir Safnahús og má sem dæmi nefna umfjöllun hennar um ömmu sína, Helgu Pétursdóttur á Draghálsi í riti sem gefið var út árið 2015 í tilefni af kosningaafmælisári íslenskra kvenna.

Fyrirlestur Þóru Elfu er frásögn af samfélaginu  á tíma  Þuríðar og Björns, séð gegnum líf þeirra. Þau voru bændur en stunduðu ýmislegt annað í þágu heimilis og samfélags eins og siður var á þeirra tíma. Hann hefst kl. 19.30 og tekur um klukkutíma í flutningi. Að honum loknum verður spjallað og heitt verður á könnunni. Ef ástæða er til að breyta tímasetningu viðburðarins vegna veðurs verður það auglýst á www.safnahus.is.

Er fólk hvatt til að mæta og hlýða á vandaða framsögu um þetta merka efni.

Categories:

Tags:

Comments are closed