Fimmtudaginn 27. ágúst kl. 17.00 verða alls þrír viðburðir í Safnahúsi. Opnaður verður ljósmyndavefur og ljósmyndasýningin „Rammar“ auk sýningar á teikningum 11 ára drengs, Matthíasar Margrétarsonar, sem heldur nú sína fyrstu sýningu á hinum ýmsu furðuverum.
Ljósmyndasafnið mun sýna myndir sem gefnar hafa verið til safnsins í römmum og ekki hefur verið talin ástæða til að hreyfa við, enda fallegur rammi oft mikilvægur hluti af því hvernig ljósmynd nýtur sín. Sýningin hefur hlotið yfirskriftina „Rammar“ og mun standa til 6. nóvember.
Á Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar er mikið magn ljósmynda. Alls eru um 15.000 myndir til á safninu og fer alltaf fjölgandi. Fram að þessu hafa þær nær einungis verið varðveittar í pappírsformi. Á síðasta ári fékkst styrkur frá Þjóðhátíðarsjóði til að setja upp ljósmyndavef og skanna inn myndir og afraksturinn af því má sjá í opnun borgfirsks ljósmyndavefjar fimmtudaginn 27. ágúst kl. 17.00. Vefhönnuður er Jóhann Ísberg.
Matthías Margrétarson heldur hér sína fyrstu myndlistarsýningu aðeins ellefu ára gamall. Hann er fæddur 15. sept. 1997 og alinn upp í Borgarnesi til 5 ára aldurs. Allt frá því að hann náði taki á blýantinum hefur hann setið við að teikna myndir langtímum saman. Matthías hefur farið á sumarnámskeið í Myndlistarskóla Reykjavíkur undanfarin sumur og verið á myndasögunámskeiði þar. Birtist sagan hans í Morgunblaðinu fyrr í sumar. Matthías á ættir að rekja í Borgarnes þar sem móðir hans er Margrét Jónsdóttir, dóttir Jóns Eggertssonar kaupmanns og Guðrúnar Þórðardóttur frá Krossnesi. Faðir Matthíasar er Benedikt Matthíasson. Matthías byrjaði ungur að teikna eðlur um þriggja ára þar sem hvert bein fékk að njóta sín. Síðan komu inn ýmsar fígúrur og furðuverur, það nýjasta hjá honum er að teikna mannsandlit en furðuverurnar og fígúrurnar hafa enn vinninginn.
Comments are closed