Safnahús Borgarfjarðar tekur í ár þátt í tvenns konar menningardagskrá á landsvísu, annars vegar með tónleikum sem haldnir voru í apríl og voru hluti af afmælisdagskrá fullveldisins og hins vegar með sýningu um Hvítárbrúna nú í nóvember, en það verkefni er þáttur í viðburðaskrá Menningararfsárs Evrópu. Tónleikarnir í vor tilheyrðu verkefninu „Að vera skáld og skapa“ og voru haldnir í samstarfi við Tónlistarskóla Borgarfjarðar.
Fjölbreytt vetrardagskrá Safnahúss hófst með opnun sýningar á myndverkum Steinunnar Steinarsdóttur 1. september og myndamorgni og fyrirlestri Sigrúnar Elíasdóttur um fantasíur og vísindaskáldsögur 13. september s.l.
Fimmtudaginn 1. nóv. n.k. kl. 19.30 verður sýningin um Hvítárbrúna opnuð, enda fór vígsla hennar fram þennan sama dag árið 1928. Sýningarstjóri er Helgi Bjarnason frá Laugalandi. Um er að ræða veggspjaldasýningu með ljósmyndum og fróðleik um ýmislegt tengt brúnni og er Heiður Hörn Hjartardóttir hönnuður sýningarinnar. Viðburðurinn er eins og áður sagði hluti af dagskrá Menningararfsárs Evrópu 2018 og er verkefnið unnið í samvinnu við Minjastofunun Íslands og er helgað minningu Þorkels Fjeldsted, fyrrum bónda í Ferjukoti í Borgarhreppi. Verkefnið er styrkt af Kaupfélagi Borgfirðinga.
Á myndamorgnum skjalasafnsins eru gestir beðnir að aðstoða skjalasafnið við að greina ljósmyndir. Sá næsti verður 18. október kl. 10.30, en eftir áramót verður tímasetningunni breytt í 10.00.
Fimmtudaginn 6. desember verður aðventuopnun í Safnahúsi, þá verður m.a. lengd opnun á bókasafni og þýðing Magnúsar Ásgeirssonar á Aðventu Gunnars Gunnarssonar lesin af sjálfboðaliðum. Þeir sem áhuga hafa á að aðstoða Safnahús við verkið eru beðnir um að hafa samband (sjá upplýsingar hér neðst í fréttinni).
Þrír fyrirlestrar verða haldnir eftir áramót og er það mikið tilhlökkunarefni. Nánar verður sagt frá þeim síðar, en þeir eiga það sameiginlegt að vera um efni af fagsviðum safnanna.
Laugardaginn 16. mars verður opnuð sýning á verkum myndlistarkonunnar Josefinu Morell sem er verðugur fulltrúi þeirrar gróskumiklu myndlistarstarfsemi sem fer fram í héraðinu.
Sumarsýning Safnahúss 2019 (opnuð 18. maí) verður úr safni Hallsteins Sveinssonar (Listasafn Borgarness) og annast Helena Guttormsdóttir myndlistarmaður val efnis og sýningarstjórn.
Haustið 2019 hefst svo aftur lífleg vetrardagskrá sem þegar hafa verið lögð drög að. Viðburðaskrá þess árs verður bráðlega birt í heild sinni á heimasíðu Safnahúss.
Starfsfólk Safnahúss þakkar þeim fjölmörgu aðilum sem komið hafa að starfsemi hússins það sem af er ári.
Nánari upplýsingar um viðburði í Safnahúsi fást í síma 433 7200 eða með tölvupósti: safnahus@safnahus.is
Ljósmynd efst (Guðrún Jónsdóttir): Fornrúta Sæmundar Sigmundssonar ekur út á gömlu Hvítárbrúna á 80 ára afmæli mannvirkisins árið 2008.
Comments are closed