Um þessar mundir eru 110 ár liðin frá fæðingu Valdísar Halldórsdóttur skáldkonu. Valdís var eldri dóttir Halldórs Helgasonar og Vigdísar Valgerðar Jónsdóttur á Ásbjarnarstöðum í Stafholtstungum; fædd 27. maí árið 1908. Hún starfaði sem kennari og bjó lengst af í Hveragerði ásamt manni sínum sr. Gunnari Benediktssyni presti og rithöfundi. Saman eignuðust þau tvö börn, Heiðdísi og Halldór en fyrir átti Gunnar þrjá syni. 

Valdís ritstýrði tímaritinu Emblu sem flutti efni eftir konur í þremur heftum á árunum 1945-1949.  Þar átti hún sjálf bæði ljóð og smásögur sem birtust einnig víðar í tímaritum. Þetta var óvenjulegt og djarft framtak þess tíma og sýnir áhuga hennar og yndi af skáldskap.

Valdís var um margt á undan sinni samtíð. Hún sótti sér menntun sem var ekki algengt meðal kvenna af hennar kynslóð og vann alla tíð utan heimilis. Einnig lét hún sig ýmis málefni varða, hérlendis sem erlendis.

Árið 2015 heiðruðu Tónlistarskóli Borgarfjarðar og Safnahús minningu Valdísar og nokkurra ættkvenna hennar á tónleikum og við það tækifæri var gefið út hefti með ljóðum þeirra. Var það gert í samvinnu við fjölskyldur kvennanna og var nokkuð af ljóðunum áður óbirt, m.a. eftirfarandi vísa þar sem Valdís kveður um líkt veðurfar og verið hefur á Íslandi það sem af er í maímánuði 2018:

                                       Rigningasumar
Sveipast landið suddatrekk.
Sólina margur spyr um.
Sumarið hjá garði gekk,
en gleymdi að berja að dyrum.

 

Helstu heimildir:
Anna Hermanns. 2002. Valdís Halldórsdóttir, minningargrein. Morgunblaðið, 3. júlí bls. 34.
Sævar Ingi Jónsson ofl. Skáldkonur frá Ásbjarnarstöðum, 2015.  Safnahús Borgarfjarðar.

 

Categories:

Tags:

Comments are closed