Safnahús og Tónlistarskóli Borgarfjarðar hafa tekið saman höndum um tilraunaverkefni til að vekja athygli á þuluforminu og hvetja til sköpunar á grundvelli þess. Verkefnið er unnið með aðstoð Árnastofnunar sem leggur til upptökur af eldri þulum sem varðveist hafa í munnlegri geymd, kveðnar af borgfirskum konum. Um leið er skáldkonunnar Guðrúnar Jóhannsdóttur frá Sveinatungu minnst með því að úrval af þulum hennar er notað sem námsefni fyrir hluta nemenda skólans á vorönn 2012.
Guðrún var eitt fárra seinni tíma skálda sem ortu undir þuluhætti, formi sem byggir á fornum arfi en er frjálslegt að gerð og án erindaskila. Verkefnið vinnst með þeim hætti að nemendur fá að hlýða á upptökurnar með gömlu þulunum til að heyra hvernig kveðið var á fyrri tímum. Síðan vinna þeir með þulur Guðrúnar í frjálsri sköpun og tjáningu á vorönn undir leiðsögn kennara. Afraksturinn verður kynntur á nemendatónleikum í vor. Tilgangurinn með verkefninu er að kynna þuluformið, en ekki síst að benda á náin tengsl bókmennta og tónlistar í gegnum tíðina, en texti hefur frá fornu fari verið kveikja að tónsmíðum hvers konar. Sem dæmi um þetta má nefna trúbadorana, ljóðasönginn, rappið og rokkið svo nokkrar ólíkar tónlistargerðir séu upp taldar.
Í ár eru liðin 120 ár frá fæðingu skáldkonunnar Guðrúnar Jóhannsdóttur sem kenndi sig sem skáld við Brautarholt á Kjalarnesi. Guðrún var fædd 21. júní 1892. Hún var uppalin í Sveinatungu í Norðurárdal og taldi sig alltaf fyrst og fremst vera Borgfirðing. Hún flutti síðar að Brautarholti og kenndi ritverk sín við þann bæ. Hún var elst ellefu systkina, barna Jóhanns Eyjólfssonar bónda og alþingismanns frá Sveinatungu og Ingibjargar Sigurðardóttur af Akranesi. Þess má geta að Jóhann var sonur hjónanna Helgu Guðmundsdóttur frá Sámsstöðum og Eyjólfs Jóhannessonar bónda í Hvammi í Hvítársíðu, en Eyjólfur var eitt kunnasta alþýðuskáld Borgfirðinga á 19. öld. Guðrún skrifaði mikið og hafa komið út sex bækur með skáldskap hennar auk þess sem efni eftir hana hefur birst í tímaritum.
Ljósmynd: Guðrún Jóhannsdóttir (1892-1970). Birt með góðfúslegu leyfi Ingibjargar Bergsveinsdóttur dóttur Guðrúnar.
Comments are closed