Sýningu Ingu Stefánsdóttur sem opna átti 16. maí var frestað um eitt ár, fram til 2021. Fram til 2. júní í sumar verða í Hallsteinssal sýndar landslagsmyndir frá nágrenni Húsafells, úr safneign Listasafns ASÍ. Þar má sjá verk eftir Ásgrím Jónsson, Jón Þorleifsson og Jón Stefánsson. Einnig eru þar sýnd verk í eigu Nýlistasafnsins eftir hollenska listamanninn og Íslandsvininn Douwe Jan Bakker. Sýningarstjóri er Elísabet Gunnarsdóttir safnstjóri Listasafns ASÍ.

Fimmtudaginn 11. júní er svo upphafsdagur sýningarinnar 353 andlit undir sýningarstjórn Helga Bjarnasonar. Þetta er í annað sinn sem Helgi annast sýningarverkefni fyrir Safnahús, en hann var sýningarstjóri að sýningu um Hvítárbrúna sem sett var upp á 90 ára afmæli hennar árið 2018.

Heitið 353 andlit vísar til þess að á sýningunni má sjá ljósmyndir þar sem 353 andlit koma fyrir. Um er að ræða ljósmyndir af mannlífi í Borgarnesi á fyrrihluta 9. áratugarins séð með augum Helga sem þá starfaði sem blaðmaður Morgunblaðsins á staðnum. Margt af myndunum sýnir verkafólk að störfum og er verkefnið stutt af Stéttarfélagi Vesturlands. Sýningin stendur fram í september.

Á neðri hæðinni eru grunnsýningarnar Safnahúss, Ævintýri fuglanna og Börn í 100 ár. Þær eru opnar 13-17 alla daga sumarsins, aðgangseyrir er 1500 og ókeypis fyrir börn yngri en 18 ára. 

Í Safnahúsi er farið að tilmælum sóttvarnalæknis og eru gestir beðnir um að gæta kurteisisfjarlægðar.

Ljósmynd með frétt: frá sýningunni Landslag væri lítils virði… úr safneign Listasafns ASÍ og Nýlistasafnsins.

Categories:

Tags:

Comments are closed