Í dag er alþjóðlegi safnadagurinn á Íslandi. Fulltrúar starfsmanna Safnahúss hófu daginn á fundi byggðaráðs sem tók við sumargjöf hússins til sveitarstjórnar á afmælisári Borgarness; veggspjaldi um Björn Guðmundsson höfund Bjössaróló. Fengu starfsmenn afar hlýjar móttökur hjá fundarmönnum.  Veggspjaldið hefur verið í smíðum um nokkurt skeið og er hugsunin að baki því að minna á hugsjónir Björns á sviði umhverfismála.  Spjaldið hannaði Heiður Hörn Hjartardóttir og textagerð annaðist Guðrún Jónsdóttir sem einnig á þar ljósmynd ásamt Theodór Kr. Þórðarsyni.

Byggðaráð hyggst koma veggspjaldinu fyrir á stað þar sem margir eiga leið hjá og er það vel.  Á veggspjaldinu má sjá eftirfarandi texta:

Bjössaróló í Borgarnesi
Björn Guðmundsson og hugsjónir hans

Björn Guðmundsson var fæddur árið 1911. Hann var trésmiður og vann lengst af hjá Kaupfélagi Borgfirðinga. Bjössi var langt á undan sinni samtíð á sviði sjálfbærni og minjaverndar. Meðal þess sem hann átti þátt í að bjarga frá eyðileggingu voru gömlu verslunarhúsin í Englendingavík í Borgarnesi.

Bjössi var barnelskur mjög.  Árið 1979 hóf hann smíði róluvallarins, í næsta nágrenni við hús sitt á Vesturnesi og hélt honum síðan við og endurbætti. Hann lagði áherslu á að hafa leiktækin í náttúrulegum litum og vildi að börnin gengju vel um og umgengjust náttúruna af virðingu. Meðal annars áttu þau ekki að tína blómin heldur leyfa þeim að vaxa.

Bjössi nýtti afgangsspýtur og málningu í smíði sína. Hann notaði helst jarðarliti og inngangurinn á völlinn var eftir krókaleið. Aðspurður svaraði hann því til að það væri til að kenna krökkum að flýta sér ekki um of í lífinu. Hann setti líka máltæki á nokkra staði til að kenna börnunum þau. Þessi orð stóðu skrifuð með trjágreinakurli á brúnni yfir skarðið:

Fjarlægðin gerir fjöllin blá og mennina mikla.“

Í dag annast Borgarbyggð eftirlit og viðhald Bjössaróló í anda Bjössa og er völlurinn skilgreindur sem minjastaður. Árið 2001 var afhjúpað þar skilti þar sem m.a. má sjá mynd af Bjössa og Vigdísi Finnbogadóttur, þáverandi forseta Íslands, þar sem hún prófar eina róluna. Árið 2017 kom Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands í Borgarnes vegna 150 ára afmælis staðarins. Meðal þess sem hann nefndi í hátíðarræðu sinni var að hann og kona hans Eliza Reid hefðu oft sótt Bjössaróló heim með börn sín og ættu þaðan góðar minningar.

Árlega kemur fjöldi fólks á Bjössaróló, fjölskyldur með börn sín. Staðurinn sendir áfram skýr skilaboð um virðingu við náttúruna og sjálfbærni. Þannig lifa hugsjónir Bjössa sem á ýmsan máta vildi ráða ungum vinum sínum heilt. Í gestabók skrifar hann þetta árið 1994:

„Kaupum helst ekki nema það sem við getum borgað.“

Bjössi var um áttrætt þegar hann fór að huga að flutningi úr litla húsinu sínu yfir í hentugra húsnæði. Hann flutti í gráleita blokk við Borgarbraut árið 1994.  Á sólríkum degi það ár er hann staddur á Bjössaróló þar sem hann hafði átt góðar stundir í 15 ár:

Sat eg þar sem sólin skein
sá til margra vina,
flyt nú inn í stóran stein
og stefni á eilífðina.

Bjössi átti síðustu ævidagana á Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi þar sem hann lést 14. júlí 1998.  

 

Ljósmynd með frétt:  Björn Sv. Björnsson.

 

 

 

 

Categories:

Tags:

Comments are closed