Safnahús tekur þátt í Dimma deginum 12. janúar, en þá er í annað sinn stefnt á uppbrot hversdagsins í héraðinu og upplifun með öðrum hætti. Þess er minnst hve stutt er síðan umhverfið rafvæddist og hvernig samskipti hafa breyst frá því að snjalltæki komu fram. Það eru þær Eva Hlín Alfreðsdóttir og Heiður Hörn Hjartardóttir í Borgarnesi sem gangast fyrir framtakinu og hvetja þær heimilin til að vera án raftækja í einn dag. Draga fram kerti og vasaljós. Spilastokka og boðspil. En ekki síst að minnast gamla tímans og þakka fyrir nútímaþægindi. Skorað er á fólk að hvíla síma, net og kaffivélar eftir bestu getu og finna skemmtilegar lausnir eins og að draga fram prímusa og gasgrill. Sjá nánar á Facebook síðu verkefnisins: facebook.com/fostudagurinndimmi  

Í Safnahúsi verður boðið upp á dagskrárlið kl. 12.00 þennan dag, hádegisfyrirlestur í Hallsteinssal sem nefnist: „Straumlaust á Mýrum“ – Jóhanna Skúladóttir flytur stutt erindi um lífið í ljósleysinu. Á boðstólum verður flatbrauð með hangikjöti og sýra (mysa) með.

Categories:

Tags:

Comments are closed