Þessar vikurnar er talsvert um að margs konar hópar komi í Safnahús og eru þá á haustferðalagi. Oft eru þetta vinahópar, en einnig félagasamtök eða hópar eldri borgara og  svo ekki síst skólahópar.  T.d.  mættu hressir krakkar í 4. – 6. bekk Grunnskólans í Borgarnesi í Safnahús fyrir stuttu til að kynna sér sögu Borgarness og skoða líkön af staðnum. Voru þau mjög áhugasöm og spurðu spurninga sem hver fræðimaður hefði verið stoltur af.  

Aðal komutími skólahópa er hins vegar að vorinu og þegar líða fer á veturinn, eru þá kennarar með nemendur sína í ýmiss konar verkefnum sem tengjast safnkostinum. Þar er baðstofan frá Úlfsstöðum í Reykholtsdal (Hálsasveit) ekki síst mikilvæg, en hún er í miðju sýningarinnar Börn í 100 ár og gefur skýra mynd af mannlífi fyrri ára.

Í Safnahúsi eru sem stendur þrjár stærri sýningar, þ.á.m. grunnsýningar hússins sem eru tvær  (Börn í 100 ár og Ævintýri fuglanna) á neðri hæð þess. Á efri hæð er Hallsteinssalur og þar er uppi ljósmyndasýning frá Borgarnesi í tilefni af 150 ára afmæli staðarins í ár. Þess má geta að grunnsýningar hússins eru báðar byggðar með safnfræðslu í huga, ekki síst til ungs fólks. Hönnuður þeirra beggja er Snorri Freyr Hilmarsson leikmyndahönnuður. Börn í 100 ár var sett upp árið 2008 og Ævintýri fuglanna var reist á fimm ára tímabili og var opnuð vorið 2013. Nánari upplýsingar um opnunartíma safnanna má sjá hér annars staðar á heimasíðunni, en þess utan er opnað fyrir hópa (10+) skv. nánara samkomulagi.

Categories:

Tags:

Comments are closed