Saga Borgarness er eitt þeirra verka sem hefur verið tilnefnt til viðurkenningar Hagþenkis 2017. Var þetta tilkynnt í gær af formanni Hagþenkis, Jóni Yngva Jóhannssyni, í samstarfi við Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO og Borgarbókasafnið. Viðurkenning Hagþenkis verður veitt við hátíðlega athöfn í Þjóðarbókhlöðunni um mánaðamót febrúar og mars og felst í sérstöku viðurkenningarskjali og 1.250.000 kr. Er tilnefningin rós í hnappagat Borgarbyggðar sem stóð með sóma að útgáfu verksins s.l. vor í tilefni af 150 ára afmæli Borgarness. Bókin er gefin út af bókaútgáfunni Opnu og formaður ritnefndar var Birna G. Konráðsdóttir. Í umsögn sinni segir dómnefnd þetta: „Áhugaverð saga sem á sér skýran samhljóm í þróun Íslandsbyggðar almennt, studd ríkulegu og fjölbreyttu myndefni.“ Þess má geta að fjölmargir einstaklingar létu bókinni í té ljósmyndir og fróðleik.
Viðurkenningarráð Hagþenkis er skipað fimm félagsmönnum til tveggja ára i senn í því eru: Auður Styrkársdóttir, Guðný Hallgrímsdóttir, Henry Alexander Henrysson, Helgi Björnsson og Sólrún Harðardóttir.
Starfsfólk Safnahúss er þakklátt fyrir gott og gefandi samstarf við höfunda verksins á meðan á ritun þess stóð, þá Egil Ólafsson og Heiðar Lind Hansson.
Sjá nánar: https://hagthenkir.is/
Comments are closed