Sýningin um Pourquoi-Pas? – strandið verður opin alla daga í sumar á milli kl. 13 og 18 og tekur það fyrirkomulag gildi á morgun, þann 1. júní. Sýningin er í Tjernihúsi, 120 ára gömlu pakkhúsi í Englendingavík. Sýningin var opnuð s.l. haust í tilefni af því að þá voru liðin 70 ár síðan rannsóknaskipið fræga Pourquoi-pas? fórst við Straumfjörð á Mýrum. Það var þann 16. september árið 1936 sem þetta merkilega skip leiðangursstjórans Jean-Baptiste Charcot steytti á skerinu Hnokka og sökk. Fjörutíu meðlimir skipshafnarinnar fórust, og einungis einn komst lífs af.

 

Á sýningunni má sjá fjölda af ljósmyndum frá þessum tíma auk ýmissa merkra muna sem bjargast hafa úr skipinu. Sýningargripir eru merktir og fyrir hendi eru bæklingar með texta um sýninguna á ensku og frönsku. Aðgangeyrir á sýninguna er 400 kr. fyrir fullorðna, 300 fyrir eldri borgara og öryrkja en frítt fyrir 16 ára og yngri. Afsláttur fyrir hópa.

 

 

Categories:

Tags:

Comments are closed