Ný verk er yfirskrift sýningar myndlistarkonunnar Sigríðar Ásgeirsdóttur (Systu) sem verður opin í Hallsteinssal frá mánudeginum 29. mars. Sigríður ólst upp í Borgarnesi og á ættir að rekja til Gilsbakka í Hvítársíðu, dóttir hjónanna Sigrúnar Hannesdóttur og Ásgeirs Péturssonar. 

Sigríður er þekktust fyrir steind glerverk en sýnir nú verk unnin með akrýl og vatnslit á pappír.  Sigríður segir náttúru Íslands hafa veitt henni innblástur alla tíð.  Birta hefur ávallt verið mikilvæg í myndlist hennar og í verkunum sem hún sýnir nú leitast hún við að vinna með birtuna á sama hátt og hún gerir í glerverkum sínum.  Sigríður vinnur ávallt drög að glerverkum sínum á pappír en í verkunum á sýningunni er líkt og hún yfirfæri áhrif og upplifun af steindu gleri yfir í áferð og birtu málverkanna.

Þó Sigríður hafi mest unnið í steint gler, og lágmyndir á veggi, („svörtu verkin”), þá hefur hún einnig notað margvísleg önnur efni til listsköpunar.  Hún hefur unnið málverk, vatnslitamyndir, teikningar með títuprjónum, blýteikningar (grafít), bókverk, bókakápur, myndskreytingar í bækur og skúlptúra.

Sigríður hefur starfað við glerlist í áratugi og verk eftir hana er að finna víða bæði hér heima og erlendis. Hún lagði stund á myndlistarnám í Myndlistaskólanum í Reykjavik á árunum 1976-1978. Hún lauk síðan BA Hon. prófi frá Edinburgh College of Art árið 1983 og Post Graduate Diploma frá sama skóla árið 1984. Hún hefur haldið á annan tug einkasýninga og tekið þátt í fjölda samsýninga hér heima og erlendis. Verk eftir hana eru víða í einkasöfnum í Evrópu, Japan, Nýja Sjálandi, Bandaríkjunum og Indlandi. Hún hefur unnið fjölda steindra glugga fyrir einkaaðila hér heima og erlendis. Verk eftir Sigríði á opinberum stöðum eru m.a. í Norræna húsinu, Þjóðarbókhlöðunni, Íslandsbanka, Sjúkrahúskapellunum á Ísafirði og í Vestmannaeyjum, Hafnarhúsinu við Reykjavíkurhöfn, Barnaskólanum á Húsavík og Langholtskirkju í Reykjavík.

Sýningin verður opin kl. 13:00 – 18:00 alla virka daga fram til 1. maí og eftir það 13.00 – 17.00 alla daga til föstudagsins 7. maí. Spritt er á staðnum og allar gildandi sóttvarnarreglur hafðar í heiðri.

Ekki verður um formlega opnun að ræða en stefnt því að auglýsa viðveru listamannsins þegar og ef aðstæður leyfa. 

Categories:

Tags:

Comments are closed