Fyrsta sýningarverkefni Safnahúss á árinu 2021 verður tengt sögulega hlaðvarpinu Myrka Ísland sem er á vegum Borghreppinganna Sigrúnar Elíasdóttur og Önnu Drafnar Sigurjónsdóttur. Opnunardagurinn verður mánudagurinn 15. febrúar og sýnd verða verk eftir Lúkas Guðnason og Sigurjón Líndal Benediktsson (Jónsa) sem myndskreyta þættina. Verður sýningunni fylgt úr hlaði með rafrænni sögustund sem  hægt verður að nálgast á kvikborg.is og á Facebook síðu Myrka Íslands, sjá einnig hér. Lúkas og Jónsi eru báðir úr Borgarfirðinum og eru fæddir árið 2004.

Sýningin er í Hallsteinssal í Safnahúsi og opnunardagur hennar mánudagurinn 15. febrúar en síðasti sýningardagur 19. mars. Ekki verður um formlega opnun að ræða vegna aðstæðna en gestir boðnir hjartanlega velkomnir til að skoða sýninguna á opnunatíma, kl. 13 til 18 alla virka daga.  Farið verði að reglum um sóttvarnir hvers tíma.

Næsta verkefni í Hallsteinssal verður sýning á verkum Sigríðar Ásgeirsdóttur í lok mars n.k., nánar síðar.

Viðburðaskrá 2021 verður lögð fram í heild sinni um leið og vitað verður meira um takmarkanir á samkomuhaldi á árinu. Menningardagskrá Safnahúss er styrkt af Uppbyggingarsjóði Vesturlands.

Categories:

Tags:

Comments are closed