Sú fregn hefur borist að Frú Annie Marie Vallin- Charcot sé látin rúmlega áttræð að aldri. Hún var búsett í Frakklandi og var barnabarn skipherrans og vísindamannsins Jean Babtiste Charcot sem fórst með rannsókna- og vísindaskipinu Pourquoi pas við Mýrar aðfaranótt 16. september 1936. Hefur hún oft komið til landsins til að minnast þessa. Þá kom hún gjarnan við í Safnahúsi og gladdist mjög yfir þeim sóma sem sveitarfélagið sýndi minningu afa hennar. Síðast var hún viðstödd fjölmenna samkomu í húsinu haustið 2016 þar sem þess var minnst að 80 ár voru frá þessu mikla sjóslysi.

Blessuð sé minning þessarar merku konu sem hafði sögu afa síns svo mjög í heiðri.

Hér má sjá Vallin- Charcot á mynd sem tekin var í Safnahúsi árið 2015, þar er hún ásamt Guðrúnu Jónsdóttur forstöðumanni hússins og Svani Steinarssyni sem mikið hefur lagt af mörkum við að varðveita sögu slyssins. Svanur er búsettur í Borgarnesi en dvelur mikið í Straumfirði ásamt sínu fólki, en þar strandaði skipið á sínum tíma og var staðurinn helsti vettvangur björgunaraðgerðanna. Vinstra megin á myndinni má sjá örsýningu um strandið þar sem m.a. má sjá líkan af skipinu.

Svanur hefur verið nokkurs konar sendifulltrúi í samskiptum landanna tveggja sem þarna komu við sögu, Frakklands og Íslands og þar með sveitarfélaganna tveggja sem eiga með sér vinasamband; Borgarbyggðar og Bonsecours, heimabæjar Charcots.  Hefur hann t.d. tekið á móti fjölda gesta í Straumfirði og í Borgarnesi, þessu tengt og veitt leiðsögn um sögulegar slóðir slyssins.  Ennfremur hafa foreldrar hans, Sigrún Guðbjarnardóttir og Steinar Ingimundarson tekið rausnarlega á móti gestum á staðnum og frætt þá um atburðina sem gerðust þessa örlagaríku ótt.

Þess má geta að margar gersemar tengdar þessari merku sögu eru varðveittar í Safnahúsi, bæði munir, myndir og skjöl, m.a. persónuleg sendibréf Charcots. Veggspjaldasýnig um slysið er í stigagangi hússins og er hún mikið skoðuð af frönskum ferðamönnum.  Einnig hefur verið settur ítarlegur fróðleikur um slysið á heimasíðu Safnahúss og er hann á þremur tungumálum, ensku og frönsku auk íslensku. 

Categories:

Tags:

Comments are closed