Verk eftir Guðmundu Andrésdóttur kallast á við ramma eftir Hallstein.

Á alþjóðlega safnadaginn 18. maí s.l. var opnuð ný sýning í Hallsteinssal. Þar eru sýnd valin verk úr safnkosti Listasafns Borgarness sem  var stofnað utan um gjöf listvinarins Hallsteins Sveinssonar (1903-1995).  Sýningarstjóri er Helena Guttormsdóttir myndlistarmaður og lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands og nefnir hún sýnnguna HVAR-HVER-HVERJAR.

Helena hefur áður sett upp sýningu úr safni Hallsteins (2013) og þekkir því vel til safnkostsins.

HVAR –  Hver staður hefur sín sérkenni sem myndar staðaranda og aðgreinir einn stað frá öðrum. Júlíus Axelsson skráði með myndmáli byggingar og tíðaranda Borgarness sem að hluta er horfinn en verður nú hægt að skoða á sýningunni.

Gjöf Hallsteins Sveinssonar er meginuppistaða safnkosts Listasafns Borgarness sem er eitt safnanna fimm í Safnahúsi. HVER var þessi maður sem eyddi drjúgum tíma af lífsstarfi sínu í að ramma inn myndir fyrir starfandi listamenn og fékk oft greitt í verkum sem nú er dýrmætur hluti menningararfs okkar. Svipsterkt andlit Hallsteins varð mörgum listamönnum kveikja til sköpunar. Teikningar, málverk og höggmyndir verða sýnd á sýningunni. Einnig er áhugavert að velta fyrir sér sérkennum fólks og hvernig samtíminn hefur tilhneigingu til að afmá þau.

HVERJAR – vísar í valin verk eftir konur og af konum sem dregin verða fram.  Safnið á dýrmæt verk eftir íslenskar konur s.s. Guðmundu Andrésdóttur, Eybjörgu Guðmundsdóttur, Ragnheiði Jónsdóttur og Björgu Þorsteinsdóttur sem allar eru  brautryðjendur í sinni sköpun. Hlutverk konunnar sem vinnukona, viskubrunnur, ástmær og tákn sjást í afsteypum Ásmundar Sveinssonar bróður Hallsteins, sem eru hluti af sýningunni.

Hallsteinn gaf mikið og verðmætt listaverkasafn sitt til Borgnesinga árið 1971 og bætti all nokkru við þá gjöf síðar. Sérstaða þess er myndlist frá árinum 1940-1960 eftir marga þekkta listamenn þjóðarinnar og eru verkin í römmum smíðuðum af Hallsteini. Listasafn Borgarness starfar samkvæmt hugsjónum Hallsteins um mikilvægt hlutverk listarinnar í þágu samfélagsins og að hvetja eigi til listsköpunar.

Sýningin er opin á afgreiðslutíma Héraðsbókasafnsins virka daga 13-18, en þess utan um helgar og á hátíðisdögum 13-17. Hún stendur fram til loka september.

Við uppsetningu sýningarinnar er sérstaklega hugað að fræðslugildi á sviði íslenskrar myndlistar og eru kennarar og skólastjórnendur hvattir til að nýta þetta tækifæri til skólaheimsókna.

Categories:

Tags:

Comments are closed