Um hundrað afkomendur og tengdafólk séra Magnúsar Andréssonar á Gilsbakka voru meðal þeirra sem mættu þegar opnuð var heimildasýning um hann í Safnahúsi s.l. föstudag. Sýningin er sett upp í tilefni af 50 ára afmæli Héraðsskjalsafns Borgarfjarðar og er framlag Borgarbyggðar til dagskrár afmælisárs Jóns Sigurðssonar. Sýningin hefur hlotið heitið Séra Magnús og má sjá nánar um hana með því að smella hér. Sýningin mun standa í um það bil eitt ár og verður opin alla virka daga frá 13-18.  Við opnunina flutti Guðrún Jónsdóttir forstöðumaður ávarp þar sem m.a. kom fram að við undirbúning sýningarinnar hafa ýmsar nýjar heimildir fundist og dýrgripir komið fram eins og teiknuð mynd af Jesú Kristi, eftir Sigríði Magnúsdóttur frá Gilsbakka. Á sýningunni eru munir úr gamla bænum á Gilsbakka og stór plaköt, en einnig ítarefni fyrir þá sem vilja sjá meiri fróðleik.

Meðal afkomenda sr. Magnúsar og Sigríðar konu hans er maður sem er mörgum Borgfirðingum að góðu kunnur, en það er Ásgeir Pétursson, áður sýslumaður í Borgarnesi sem orðinn er 89 ára. Hann flutti ávarp við opnunina og þakkaði starfsfólki Safnahús það framtak að segja sögu sr. Magnúsar og fjölskyldu hans.  Á myndinni sést hann á tali við Borgnesinginn Ingibjörgu Hargrave. Ljósmynd: Birta Rán Björgvinsdóttir.

Categories:

Tags:

Comments are closed