Það gerist stundum á sýningunni Börn í 100 ár í Safnahúsi að gesti safnsins er að finna á ljósmyndunum sem þar eru. Þetta gerðist m.a. í gær þegar Ester Hurlen sótti sýninguna heim og var þessi mynd tekin við það tækifæri. Ljósmyndin sem hún er á er úr safni Bjarna Árnasonar frá Brennistöðum í Flókadal og er tekin í garðinum við Ránargötu 9 í Reykjavík snemma sumars árið 1938. Ester var þá eins árs gömul en á sjálf eintak af myndinni og þekkti hana þess vegna aftur. Börnin sem þarna eru saman komin á myndinni eru fimm talsins, þar af eru fjögur systkini, þau Margrét, Regína, Gunnar og Sigurður, börn Gunnars Gunnarssonar og Hólmfríðar Sigurðardóttur sem þá áttu heima í húsinu. Þar átti Ester einnig heima og er hún önnur frá vinstri á myndinni.
Bjarni Árnason var fæddur árið 1901. Hann var sonur Árna Þorsteinssonar og Valgerðar Bjarnadóttur sem þá bjuggu á Brennistöðum og býr þeirra fólk þar enn. Bjarni átti við vanheilsu að stríða frá barnsaldri og lamaðist að nokkru um þrítugt. Hann lærði bókband og kenndi það fag bæði við Hvítárbakkaskóla og Reykholtsskóla. Hann var sjálfmenntaður ljósmyndari og eru myndir hans merkar heimildir um mannlíf í Borgarfirði og víðar. Bjarni var búsettur á Akranesi síðustu tuttugu ár ævi sinnar og lést þar árið 1960. Fleiri myndir eru eftir hann á sýningunni og eru þær birtar með góðfúslegu leyfi Ljósmyndasafns Akraness.
Sýningin Börn í 100 ár var sett upp í Safnahúsi árið 2008 og er önnur tveggja grunnsýninga safnsins. Hún hefur vakið mikla athygli fyrir listrænt handbragð hönnuðarins, Snorra Freys Hilmarssonar. Hefur sýningin m.a. fengið lofsamleg ummæli í Lonely Planet, einni virtustu ferðahandbók heims. Á sýningunni er farið í nokkurs konar ferðalag um tímann og hefur hún sterka alþjóðlega skýrskotun og þyrkir aðgengileg öllum þjóðum og þjóðfélagshópum.
Helsta heimild: Borgfirskar æviskrár I, 1969.
Ljósmynd: Guðrún Jónsdóttir
Comments are closed