Sýningin Spegill samfélags var opnuð um helgina, en þar má sjá valið safn ljósmynda sem bárust í Ljósmyndasamkeppni sem Safnahús stóð fyrir.  Áttu myndirnar að vera frá Borgarnesi á árinu 2016.  Sýningin er fyrsti áfangi í afmælishaldi Borgarbyggðar vegna 150 ára afmæli Borgarness (1867-2017). Við opnunina flutti sveitarstjóri Borgarbyggðar, Gunnlaugur A. Júlíusson ávarp. Einnig var tilkynnt um verðlaunahafa fyrir þrjár bestu myndirnar og var þetta niðurstaða dómnefndar:  1. og 2. verðlaun: Sunna Gautadóttir,  3. verðlaun: Michelle Bird.

Fyrstu verðlaun voru gjafir frá Beco ehf og er fyrirtækinu þakkaður stuðningurinn.  Var þetta vandaður þrífótur, myndavélataska og einfótur. Önnur verðlaun voru gott utanáliggjandi drif og hreinsibúnaður frá Tækniborg í Borgarnesi. Í þriðju verðlaun var gjafabréf fyrir kvöldverð fyrir tvo í Landnámssetri Íslands og þau hlaut Michelle Bird fyrir fallega mynd af börnum að leik í fjöru við Borgarnes. Sú mynd Sunnu sem hlaut 1. verðlaun var tekin á Sauðamessu í haust, en annað sætið var fyrir mynd af hestum í kjarrlendi við Borgarnes  með Hafnarfjall í baksýn.  Þess má geta að Sunna býr í Borgarnesi. Hún lauk námi í ljósmyndun í nóvember s.l. og hefur frá áramótum lagt ljósmyndun fyrir sig sem aðalstarf. Michelle Bird býr einnig í Borgarnesi og er myndlistarkona. Hún hefur sýnt verk sín í Safnahúsi og haldið námskeið í teikningu og málun fyrir börn og fullorðna. 

Markmiðið með samkeppninni var að fanga sjónarhorn ólíkra ljósmyndara á mannlíf og umhverfi Borgarness árið 2016 sem undanfara að afmælisári. Leit dómnefnd jafnt til heimildagildis og gæða myndanna. Munu innsendar ljósmyndir með góðfúslegu leyfi höfunda verða hluti af safnkosti Héraðsskjalasafns til framtíðar og er því hér um verkefni á sviði samtímasöfnunar að ræða. Í dómnefnd voru þau Þorkell Þorkelsson (formaður),  Heiður Hörn Hjartardóttir og Kristján Finnur Kristjánsson. Heiður Hörn sá ennfremur um hönnun sýningarinnar, smiður var Hannes Heiðarsson, Tækniborg annaðist prentun myndanna og Framköllunarþjónustan veggspjaldaprentun.  Sýningin verður uppi fram í miðjan mars og er opin alla virka daga 13.00 – 18.00, aðgangur er ókeypis en söfnunarbaukur er á staðnum.

Ljósmynd hér ofar: Sunna við verðlaunamyndirnar sínar. Vinstra megin við hana má sjá þá mynd sem hlaut 1. verðlaun dfe85lo. Myndin er eins og áður kom fram tekin á Sauðamessu í Borgarnesi og drengurinn er Ólafur Leó Waage, sonur Jóhanns Waage sem er uppalinn í Borgarnesi.  

Hér neðar má sjá allar myndirnar þrjár sem unnu til verðlauna á laugardaginn. Fyrstu verðlaun hlaut eins og áður sagði mynd Sunnu Gautadóttur frá Sauðamessu. Önnur verðlaun fékk Sunna fyrir mynd af hestum á beit með Hafnarfjall í baksýn. Þriðja myndin sem hlaut verðlaun er eftir Michelle Bird og sýnir hún börn að leik í fjöru við Borgarnes.

Er öllum þátttakendum  þakkað þeirra góða framlag til þessa verkefnis.

Categories:

Tags:

Comments are closed