Dagana 27.-28. maí næstkomandi verður blásið til landsbyggðarráðstefnu í Borgarnesi á vegum Félags þjóðfræðinga á Íslandi í samstarfi við Safnahús, Reykjavíkur Akademíuna og Rannsóknarsetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu. Hér gefst tækifæri fyrir fræðafólk á fræðasviðum félags- og hugvísinda að leiða saman hesta sína og miðla af þekkingu sinni bæði til meðbræðra sinna og –systra en ekki síst að koma rannsóknum og niðurstöðum á framfæri út fyrir fræðasamfélagið

Það eru miklar hræringar í samfélögum út um allan heim og svo hefur ef til vill alltaf verið. Hópar og hópvitund er grundvöllur samfélaga hvort sem það er í samtímanum eða fortíðinni. Hópar eru af ýmsum togum fjölmennir og fámennir og öll tilheyrum við mörgum ólíkum hópum. Hugtök eins og minnihlutahópar, jaðarhópar, elítuhópar eða innflytjendur heyrum við öll í daglegri umræðu. Yfirskrift ráðstefnunnar vísar í þessa ólíku hópa og mikið fleiri sem byggja samfélög í nútíð og fortíð og hvernig líf fólks mótast af því hvaða hópum það tilheyrir og ekki síst hvaða hópum það tilheyrir ekki.

Hvað geta rannsóknir á sviði félags- og hugvísinda lagt af mörkum til að byggja brýr á milli hópa, auka skilning á áhrif þeirra á samfélög og dregið fram þá sammannlegu þræði sem liggja um öll samfélög í gegnum ólíkar hópamyndanir?

Þeir sem áhuga hafa á að taka þátt og halda erindi á ráðstefnunni eru hvattir til að senda inn heiti og helst 200 orða útdrátt fyrir 25. apríl n.k. á netfangið felagthjodfraedinga@gmail.com.

Reynt verður að koma á móts við fyrirlesara með niðurgreiðslu á gistingu og ferðakostnaði.  Nánari upplýsingar fást í ofangreindu netfangi.

 

Ljósmynd með frétt: Guðrún Jónsdóttir

 

Categories:

Tags:

Comments are closed