Björk Ingimundardóttir sagnfræðingur fagnaði sjötugsafmæli sínu 15. ágúst síðastliðinn. Hún fæddist og ólst upp á bænum Hæli í Flókadal, dóttir hjónanna Ingimundar Ásgeirssonar og Ingibjargar Guðmundsdóttur. Björk lagði stund á frjálsar íþróttir á sínum yngri árum og keppti fyrir hönd UMSB á mótum víðsvegar um landið, þar á meðal fjórum landsmótum UMFÍ.
Björk lauk kand. mag. prófi í íslenskum fræðum frá H.Í. árið 1971 og hóf þá störf við Þjóðskjalasafn Íslands. Auk starfa sinna þar hefur hún sinnt hinum ýmsu ritstörfum, mörgum hverjum tengdum heimahéraði hennar.
Björk hafði ásamt Bjarna Guðráðssyni umsjón með ritverkinu Byggðir Borgarfjarðar sem út kom í fjórum bindum á árunum 1989-1998. Hún sá jafnframt um útgáfu Sýslu-og sóknarlýsingar Mýra-og Borgarfjarðarsýslna ásamt Guðrúnu Ásu Grímsdóttur en Sögufélag og Örnefnastofnun gáfu bókina út árið 2005. Jafnframt var Björk einn af höfundum verksins Friðaðar kirkjur í Borgarfjarðarprófastdæmi sem gefið var út í tveimur bindum árið 2009. Meðal annarra ritverka hennar má nefna bókina Skjalasafn landfógeta 1695-1904 sem út kom árið 1986 og bókina Yfirrétturinn á Íslandi dómar og skjöl sem hún vann í félagi við Gísla Baldur Róbertsson en bókin er sú fyrsta í ritröð um Yfirréttinn. Þar má meðal annars finna fræðilega ritgerð Bjarkar um sögu og starfsemi Yfirréttarins sem starfaði á árunum 1563-1800.
Í 43.hefti Strandapóstsins birtist grein Bjarkar um Fjalla-Eyvind og Höllu en sú grein byggðist að allmiklu leyti á frumheimildum sem ekki höfðu verið kunnar en varðveittar eru í Þjóðskjalasafni. Sama ár var Björk útnefnd heiðursfélagi Sagnfræðingafélags Íslands á 40 ára afmæli þess.
Meðal verkefna sem Björk vinnur að nú um stundir er yfirlit um prestakalla og sóknaskipun á Íslandi frá fyrri öldum til þessa dags, það verk er langt komið.
Þá eru ótalin ýmis önnur rit, greinar, sýningarskrár og nefndarstörf sem Björk hefur komið að á sviði sagnfræðinnar.
Starfsfólk Safnahúss Borgarfjarðar óskar Björk innilega til hamingju með áfangann og þakkar henni aðstoð og velvild í garð safnanna á liðnum árum.
Comments are closed