Starfsemi safnanna fimm sem starfa saman undir merki Safnahúss var öflug og fjölbreytt á árinu sem leið.
Helstu verkefni ársins 2017
Ljósmyndasýning
Sýningin Spegill samfélags var opnuð 14. janúar. Þar mátti sjá valið safn ljósmynda sem bárust í samkeppni sem Safnahús stóð fyrir árinu áður. Áttu myndirnar að vera frá Borgarnesi á árinu 2016. Sýningin var fyrsti áfangi í afmælishaldi Borgarbyggðar vegna 150 ára afmæli Borgarness (1867-2017). Við opnunina flutti sveitarstjóri, Gunnlaugur A. Júlíusson ávarp. Verðlaun voru veitt fyrir þrjár bestu myndirnar samkvæmt mati dómnefndar og hlaut Sunna Gautadóttir 1. og 2. verðlaun og Michelle Bird 3. verðlaun. Báðar voru þær búsettar í Borgarnesi.
Fyrstu verðlaun voru gjafir frá Beco ehf, vandaður þrífótur, myndavélataska og einfótur. Önnur verðlaun voru utanáliggjandi drif og hreinsibúnaður semTækniborg í Borgarnesi gaf. Þriðju verðlaun voru gefin af Landnámssetri Íslands.
Markmiðið með samkeppninni var að fanga sjónarhorn þátttakenda á mannlíf og umhverfi Borgarness nálægt afmælisári. Leit dómnefnd jafnt til heimildagildis og gæða myndanna. Voru innsendar ljósmyndir síðan með góðfúslegu leyfi höfunda hluti af safnkosti Héraðsskjalasafns að keppninni lokinni og var þetta því verkefni á sviði samtímasöfnunar. Í dómnefnd voru þau Þorkell Þorkelsson (formaður), Heiður Hörn Hjartardóttir og Kristján Finnur Kristjánsson. Heiður Hörn sá ennfremur um hönnun sýningarinnar en smiður var Hannes Heiðarsson, Tækniborg annaðist prentun myndanna og Framköllunarþjónustan veggspjaldaprentun. Sýningin var uppi fram í miðjan mars.
Að vera skáld og skapa
Í byrjun janúar var lokið við vinnuhefti vegna samstarfs við Tónlistarskóla Borgarfjarðar og bar héraðsbókavörður hitann og þungann af því. Í heftinu voru valin ljóð eftir Halldóru B. Björnsson og var það Þóra Elfa Björnsson dóttir skáldsins sem valdi efnið. Fengu nemendur heftið í hendur strax á fyrstu dögum ársins og sömdu lög við ljóðin á vorönn undir handleiðslu kennara sinna. Uppskeruhátíðin var svo í formi fjölsóttra tónleika í Safnahúsi á sumardaginn fyrsta (20. apríl) þar sem nemendur fluttu eigin verk. Þetta er í fimmta sinn sem Safnahús og Tónlistarskóli vinna saman að verkefninu sem ber vinnuheitið „Að vera skáld og skapa“ og felst í að miðla bókmenntaarfinum og hvetja til listsköpunar ungs fólks á grundvelli menningarstefnu Borgarbyggðar. Var verkefnið styrkt af Uppbyggingarsjóði Vesturlands. Áður höfðu verk eftir þessi skáld legið til grundvallar: Guðrún Jóhannsdóttir (1892-1970), Guðmundur Böðvarsson (1904-1974), Guðrún Halldórsdóttir (1848-1930), Sigríður Helgadóttir (1884-1977), Valdís Halldórsdóttir (1908-2002), Guðrún Halldórsdóttir (1912-2006) og Snorri Hjartarson (1906-1986).
Tíminn gegnum linsuna
Sýningin Tíminn gegnum linsuna var opnuð 22. mars að viðstaddri sveitarstjórn og sveitarstjóra, Gunnlaugi A. Júlíussyni sem flutti ávarp. Nefndi hann m.a. hversu mikilvægt það er að halda sjónrænum heimildum til haga í samfélagi nútímans. Guðrún Jónsdóttir forstöðumaður Safnahúss flutti stutta tölu og ungir tónlistarmenn fluttu frumsamið lag og ljóð um Borgarnes eftir Theodóru Þorsteinsdóttur. Alls komu ríflega tvö hundruð manns á opnunina og mátti víða heyra fróðleg samtöl um gamla tíma í Borgarnesi. Sýningin stóð út árið 2017, sem var afmælisár Borgarness. Val mynda og textagerð annaðist Heiðar Lind Hansson sagnfræðingur og hönnun var í höndum Heiðar Harnar Hjartardóttur. Um verk fjögurra ljósmyndara var að ræða, sá elsti var fæddur 1896 (Friðrik Þorvaldsson) og sá yngsti árið 1952 (Theodór Kr. Þórðarson). Hinir tveir voru Einar Ingimundarson og Júlíus Axelsson. Verkefnið var styrkt af Safnaráði Íslands.
Til minningar um ævi og störf
Á árinu var rými við stigauppgöngu nýtt fyrir veggspjöld í minningu manna úr héraði. Fyrstu mánuðina var uppi sýning um Jakob Jónsson á Varmalæk, en frá 22. ágúst voru þar veggspjöld um dr. Selmu Jónsdóttur. Heiður Hörn Hjartardóttir hannaði báðar sýningarnar og sýningin um Selmu var enn uppi um áramót.
Í júní var útbúið veggspjald um Björn Guðmundsson höfund Bjössaróló og það afhent sveitarstjórn sem sumargjöf á afmælisári Borgarness. Lagði forseti sveitarstjórnar til að það yrði sett upp í Íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi og var það einkar vel til fundið.
Í janúar var Önnu Þ. Bachmann minnst á heimasíðu Safnahúss, en hún lést annan þess mánaðar 88 ára að aldri. Anna stóð vaktina í Safnahúsi í fjöldamörg ár ásamt manni sínum Bjarna Bachmann sem gegndi safnvarðarstarfi fyrir borgfirsku söfnin í aldarfjórðung. Þess má geta að árið áður hafði Anna og fjölskylda hennar gefið Safnahúsi góða gjöf, ekki síst fyrir tilstilli Þórðar Bachmann, sonar þeirra hjóna. Um var að ræða íþróttasafn Bjarna, bækur og muni sem tilheyrðu þessu mikla áhugamáli hans. Safninu var komið fallega fyrir í vönduðum sérsmíðuðum skápum sem fylgdu gjöfinni, og standa þeir í handbókaherbergi Safnahúss.
Sú fregn barst í októberlok að Frú Annie Marie Vallin-Charcot væri látin í Frakklandi, rúmlega áttræð að aldri. Var hennar minnst á heimsíðu Safnahúss. Frú Vallin-Charcot var barnabarn skipherrans og vísindamannsins Jean Babtiste Charcot sem fórst með rannsókna- og vísindaskipinu Pourquoi pas við Mýrar aðfaranótt 16. september 1936. Hafði hún oft komið til landsins til að minnast þessa. Þá kom hún gjarnan við í Safnahúsi og gladdist mjög yfir þeim sóma sem sveitarfélagið sýndi minningu afa hennar og annarra í áhöfn skipsins. Síðast var hún viðstödd fjölmenna samkomu í húsinu haustið 2016 þar sem þess var minnst að 80 ár voru frá þessu mikla sjóslysi.
Í árslok var gefið út sérprentað bókamerki í minningu tveggja frænda, þeirra Jóns Guðmundssonar frá Hólmakoti og Bjarna Valtýs Guðmundssonar.
Íslenski safnadagurinn
Íslenski safnadagurinn var miðvikudaginn 18. maí. Tók Safnahús þátt í þessu landsátaki safna með því að bjóða upp á leiðsögn og hafa ókeypis inn á sýningar. Einnig var tekið þátt í sameiginlegum auglýsingum vegna dagsins.
Sumarlestur barna
Í tíunda sinn efndi Héraðsbókasafnið til sumarlesturs fyrir börn á aldrinum 6-12 ára og er nánar gerð grein fyrir því í skýrslu Héraðsbókavarðar sem annast skipulagninu verkefnisins. Að venju voru sumarstarfsmenn honum til aðstoðar, þau Sandri Sjabansson og Anna Þórhildur Gunnarsdóttir.
Rannsóknir og skrif
Talsvert var sett inn af efni á heimasíðu hússins www.safnahus. Má þar nefna samantekt fróðleiks um byggingar og fólk úr héraði. Einnig skrifaði Guðrún Jónsdóttir ásamt Garðari Halldórssyni grein um dr. Selmu Jónsdóttur í Morgunblaðið 22. ágúst.
Samstarf
Unnið var að ýmsum samstarfsverkefnum. Mikil samvinna var við sveitarfélagið um útgáfu Sögu Borgarness sem kom út 22. mars. Var Guðrún Jónsdóttir tengiliður ritnefndar við sveitarstjórn og sat einnig í hátíðarnefnd. Jóhanna Skúladóttir annaðist myndaumsjón að mestu leyti. Báðar komu þær talsvert að prófarkalestri. GJ átti einnig sæti í verkefnisstjórn við gerð Menningarstefnu Vesturlands sem leit dagsins ljós á árinu. Ennfremur tók hún þátt í fundum safna á Vesturlandi þar sem ýmsar hliðar samstarfs voru ræddar. Samstarf var áfram við Tónlistarskóla Borgarfjarðar um verkefnið Að vera skáld og skapa og þjónustusamningur var gerður við Menntaskóla Borgarfjarðar um afnot skólans af bókasafni og aðgengi að safnfræðslu. Unnið var með Heiðari Lind Hanssyni sagnfræðingi að uppsetningu sýningarinnar Tíminn gegnum linsuna, ekki síst var það á borði Héraðsskjalavarðar. Lestrarátakið sumarlestur var unnið í samvinnu við tilheyrandi fræðslustofnanir í héraði. Dagana 27.-28. maí var haldin landsbyggðarráðstefna (Borgarfjarðarbrúin) í Borgarnesi á vegum Félags þjóðfræðinga á Íslandi í samstarfi við Safnahús, Reykjavíkurakademíuna og Rannsóknarsetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu. Framlag Safnahúss fólst í kynningu, fyrirlestri á ráðstefnunni og móttöku gesta við upphaf hennar. Síðast en ekki síst má nefna samstarf við eftirtaldar menningarstofnanir um að lyfta minningu dr. Selmu Jónsdóttur á árinu: Kvennasögusafn Íslands, Landsbókasafn-Háskólabókasafn, Listasafn Íslands og Listfræðafélag Íslands. Héraðsbókasafnið hefur um nokkurt skeið afhent leikskólabörnum lánþegaskírteini með formlegum hætti í samvinnu við skólana og var það einnig gert í ár. Í árslok bauð Héraðsbókasafn Borgarfjarðar lánþegum sínum aðgang að Rafbókasafninu í samvinnu við bókasöfn landsins. Í árslok hóf Rotary verkefni um merkingar gamalla húsa í Borgarnesi í samstarfi við Heiðar Lind Hansson og mun Safnahús koma að því máli. GJ átti sæti í stýrihópi um mótun safnastefnu Þjóðminjasafns á árinu. Ýmislegt fleira mætti telja.
Skráningar
Eins og fram kemur nánar hér síðar í skýrslunni var mikið átak í skráningum og aðbúnaði safnkosts á árinu. Um 2000 ljósmyndir voru skannaðar á vegum Héraðsskjalasafns og mikilll áfangi náðist þegar allt steinasafn náttúrugripasafnsins var greint, flokkað og skráð í Sarp. Allir nýir gripir safnanna voru skráðir í Sarp.
Fyrirlestrar
Á árinu kom sveitarstjóri því á framfæri að staðið yrði fyrir fyrirlestrahaldi í Safnahúsi. Um haustið var komið fyrir sýningartjaldi í Hallsteinssal, sem keypt hafði verið árinu áður. Var það strax nýtt fyrir tvo fyrirlestra. Sá fyrri var erindi Sigursteins Sigurðssonar um mannvirki í héraði og sögu þeirra. Var hann haldinn 26. október. Nokkrum vikum síðar eða 16. nóvember flutti Heiðar Lind fyrirlestur sem hann nefndi „Tíu þræðir úr sögu Borgarness.“ Var gerður góður rómur að báðum fyrirlestrunum og þeir vel sóttir. Verkefnið var styrkt af Uppbyggingarsjóði og fylgdu þar með tveir fyrirlestrar sem frestað var í samráði við sjóðinn og voru haldnir í ársbyrjun 2018.
Gömul hús
Að venju sótti Safnahús um styrk til Minjastofnunar vegna endurgerðar Hlíðartúnshúsanna sem eru minjar um búskap við Borgarbraut innan bæjarmarka Borgarness og eru í eigu Borgarbyggðar. Fékkst styrkur upp á kr. 500.000 til framkvæmda á árinu og var hann annars vegar nýttur til að gera upp hlöðu sem er ein bygginganna og hins vegar til að endurnýja þak á fjárhúsi. Safnahús hefur sótt um styrki til viðgerðar á húsunum allt frá árinu 2009 og er það gert í samvinnu við eignasvið Borgarbyggðar sem annast skipulag framkvæmda hverju sinni.
Á árinu 2015 kom í ljós að fyrirhugað væri að rífa hús nr. 17, 21 og 21b við Gunnlaugsgötu í tengslum við nýframkvæmdir á lóð Grunnskólans í Borgarnesi. Sent var inn erindi frá Safnahúsi þar sem þessu var mótmælt og var það ítrekað með bréfi til sveitarstjóra í mars 2017. Ennfremur var send inn formleg athugasemd vegna deiliskipulagstillögu um lóð skólans vegna húsanna nr. 21 og 21 b við Gunnlaugsgötu. Þegar þetta er skrifað (janúar 2018) hefur verið ákveðið að þyrma húsi nr. 17 (Ásbjarnarhúsi), en hin húsin tvö eru enn í hættu.
Myndamorgnar
Fimmtudaginn 7. desember var haldinn fyrsti myndamorgunninn sem Héraðsskjalasafn stóð fyrir og á árinu 2018 eru fyrirhugaðir fleiri slíkir. Eru gestir þá beðnir um að greina ljósmyndir. Jóhanna Skúladóttir héraðsskjalavörður annast framkvæmdina og má sjá nánar um verkefnið í greinargerð hennar um skjalasafnið.
Alþjóðlegir straumar
Starfsfólk fór tvær námsferðir utan á árinu. Annars vegar kynnti forstöðumaður sér rekstur safnaklasa og menningarmiðstöðva í tveimur bæjum í Þýskalandi og hins vegar tók héraðsbókavörður þátt í ferð forstöðumanna íslenskra bókasafna til Berlínar. Að ferðunum loknum skiluðu báðir ferðalangar ítarlegum greinargerðum inn í starfsmannahópinn og til sveitarstjórnar um upplifun sína. Einnig flutti forstöðumaður erindi um efnið á vorfundi Þjóðminjasafns. Eru slíkar námferðir afar mikilvægt innlegg í starfsemina; mikilvægur þáttur í að fylgjast með þróun safnastarfs í alþjóðlegu samhengi.
Annað
Til viðbótar ofangreindu voru ýmis smærri verkefni unnin. Hér skulu nefnd nokkur dæmi:
Skjalaskápur keyptur – Nýr skjalaskápur var keyptur fyrir skjalasafnið í marsmánuði og honum komið fyrir í varðveislurými í Safnahúsi af Ara Jóhannessyni og Kristínu aðstoðarkonu hans.
Útlánareglur – Settar voru nýjar útlánareglur fyrir byggðasafnið og þær birtar á heimasíðu.
Upplýsingagjöf til sveitarstjórnar – Haldnir voru 17 starfsmannafundir. Var á þeim öllum rituð ítarleg fundargerð sem send var til sveitarstjórnar og sveitarstjóra strax að fundi loknum. Með þessum hætti eiga sveitarstjórnarmenn auðvelt með að fylgjast með starfseminni og fylgni hennar við stefnu sveitarfélagsins. Hefur þetta fyrirkomulag nú verið í gildi í um tíu ár og hefur reynst vel.
Umsögn til Þjóðskjalasafns – Þjóðskjalasafn sendi í byrjun maí drög að reglugerð um héraðsskjalasöfn til umsagnar. GJ var í samráði við sveitarstjóra um athugasemdir og sendi hann inn skjal frá byggðaráði. Ennfremur sendu eftirtaldar stofnanir inn athugasemdir saman: Menningarmiðstöð Hornafjarðar, Menningarmiðstöð Þingeyinga og Safnahús (sjá fylgiskjal). Einnig sendu héraðsskjalaverðir sameiginlega inn athugasemdir.
Heimsókn þjóðminjavarðar – Margrét Hallgrímsdóttir heimsótti viðurkennd söfn landsins í ágúst til að ræða nýja safnastefnu og kom m.a. í Safnahús. Skoðaði hún sýningar og einnig geymslur á Sólbakka auk þess sem hún átti fund með forstöðumanni. Margrét lauk lofsorði á þann árangur sem unnist hefur í safnamálum hjá Borgarbyggð á síðustu árum.
Aðventa lesin – Föstudaginn 8. desember var bókin Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson lesin upp í heild sinni í Safnahúsi, að sjálfsögðu í þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar. Það var áhugahópur sem stóð að lestrinum og lásu eftirtalin: Eygló Lind Egilsdóttir, Geirlaug Jóhannsdóttir, Guðrún Jónsdóttir, Jóhanna Skúladóttir, Sævar Ingi Jónsson og Vigdís Pálsdóttir. Voru gestir og gangandi boðnir velkomnir að setjast um stund og hlýða á lesturinn. Ýmislegt annað var um að vera dagana 7. og 8. desember, s.s. myndamorgunn undir heitinu„Þekkir þú myndina?“ Þar voru sýndar ljósmyndir og gestir beðnir að greina þær. Föstudaginn 8. desember var ennfremur lengd opnun – bókasafnið var opið til 20.00 og þá hófst frásögn Gunnlaugs A. Júlíussonar afrekshlaupara af þátttöku hans í hlaupi á Bretlandi fyrir nokkrum árum.
Umhverfismál – Safnahús hefur lagt sitt af mörkum í að draga úr notkun plastpoka. Margnota innkaupapokar hafa verið notaðir og sorp flokkað auk þess sem reynt er að kaupa að sem mestu leyti umhverfisvænar ræstivörur. Sótt var um til Borgarbyggðar að fá margnota poka til notkunar fyrir gesti bókasafns og er málið í vinnslu þegar þetta er skrifað. Starfsmenn koma að öllu jöfnu gangandi/hjólandi til vinnu eða taka strætisvagn.
Faglegt starf – allir starfsmenn sóttu fagþing síns starfssviðs á árinu. Er það afar mikilvægt, annars vegar mjög fræðandi og hins vegar skapast verðmætt tengslanet sem nýtist í starfi.
Ferð til Dalvíkur – Byggðaráð kynnti sér starfsemi Bergs á Dalvík í september og slóst forstöðumaður með í þá för.
Ný stefnumótun – í lok ágúst boðaði Byggðaráð mögulegar breytingar á rekstri safna sveitarfélagsins og var eftirfarandi bókað á fundi ráðsins þann 24. ágúst.: „Umræða um safnamál í Borgarbyggð. Byggðarráð ræddi stöðu safnamála í Borgarbyggð í víðu samhengi. Rætt um að fá óháðan fagaðila í safnamálum til að vinna að framtíðarskipan safnamála í Borgarbyggð. Sveitarstjóra falið að vinna áfram að málinu.“ Í framhaldi af þessu var skipuð sérstök nefnd um safnamálin og áttu eftirtaldir sæti í henni: Björn Bjarki Þorsteinsson, Guðný Dóra Gestsdóttir og Guðveig Eyglóardóttir. Starfar nefndin með aðstoð ráðgjafa frá Nolta og mun skila áliti sínu í lok janúar 2018.
Samningur um þjónustu – í október gerðu Safnahús og menntaskóli Borgarfjarðar með sér samning um aðgengi skólans að þjónustu bókasafns og safnfræðslu. Er það staðfesting á góðu samstarfi sem verið hefur í gildi frá stofnun skólans árið 2007.
Starfsfólk. Í Safnahúsi starfa þrír fastráðnir starfsmenn í fullu starfi, þau Guðrún Jónsdóttir forstöðumaður, Jóhanna Skúladóttir héraðsskjalavörður og Sævar Ingi Jónsson héraðsbókavörður. Auk þess starfar Halldór Óli Gunnarsson að sérverkefnum og Helga Jóhannsdóttir annast ræstingar. Einnig starfar Ásmundur Guðmundsson á bókasafni yfir veturinn í hlutastarfi og Anna Þórhildur Gunnarsdóttir og Sandri Sjabansson hafa undanfarin ár verið sumarstarfsmenn á bókasafni og í sýningavörslu.
Safnahús Borgarfjarðar nýtur mikils velvilja íbúa sem brottfluttra úr héraði. Sannast þetta í heimsóknum, gjöfum og ýmiss konar öðru framlagi. Er þetta afar þakkarvert og víðtækt tengslanet er í raun forsenda góðs safnastarfs.
Comments are closed