Heilsa og næring ungbarna, 5. mars
Fimmtudaginn 5. mars kl. 10.30 verður fyrirlestur á bókasafninu fyrir foreldra og aðra aðstandendur ungra barna. Erindið flytur Ebba Guðný Guðmundsdóttir sem m.a. er umsjónarmaður þáttanna Eldað með Ebbu. Þar fer hún yfir mikilvæg atriði sem gott er að hafa í huga þegar byrjað er að gefa litlu barni að borða og öll fjölskyldan mun njóta góðs af. 

Ritsmiðjur, 11. og 25. mars
Miðvikudagana 11. og 25. mars stendur bókasafnið fyrir tvenns konar ritsmiðjum í umsjón Sunnu Dísar Másdóttur sem er sjálfstætt starfandi bókmenntagagnrýnandi, ritlistarleiðbeinandi og skáld. Hámarksfjöldi þátttakenda er 15 og aðgangur er ókeypis.  Hér má sjá nánar um ritsmiðjurnar:

I Að skrifa lífiðmiðvikudagur 11. mars kl. 19.20 – 22.30
Fræðandi smiðja um ævisögur, sjálfsævisögur, skáldævisögur og gráu svæðin þar á milli – hvað felst í því að skrifa um eigið líf eða annarra? Lesin verða brot úr ævisögum og gerðar stílæfingar sem veita innblástur til eigin skrifa.    

II Örsögurmiðvikudagur 25. mars kl. 19.20 – 22.30
Smiðja fyrir fólk sem vill liðka skrifvöðvana og komast í gang. Varúð: Það er allt of skemmtilegt að skrifa örsögur og nokkur hætta á því að ánetjast iðjunni! En hvað er örsaga? Skoðuð verða nokkur dæmi um þetta skemmtilega bókmenntaform, gerðar verða stílæfingar og æfingar í að skrifa örsögur. 

Skráning í smiðjurnar er fyrirfram, hjá Sævari héraðsbókaverði í síma 433 7200 eða bokasafn@safnahus.is.

Ásgerður Búadóttir 12. mars – þessum viðburði hefur verið frestað.
Auk ofangreindra viðburða verður boðið upp á fróðleik fimmtudagskvöldið 12. mars þar sem Aldís Arnardóttir listfræðingur flytur fyrirlestur um Ásgerði Búadóttur sem var brautryðjandi á sviði listvefnaðar á Íslandi. Aldís er sýningarstjóri sýningarinnar Ásgerður Búadóttir – Lífsfletir sem nú stendur yfir á Listasafni Reykjavíkur,  Kjarvalsstöðum.

Fyrirlesturinn er á fagsviði Listasafns Borgarness. Hann er á efri hæð Safnahúss, gengið inn um aðalinngang.  Framsagan tekur um klukkutíma, svo verður spjallað og heitt á könnunni. 

Myndamorgunn 12. mars
Vakin er athygli á að sama dag kl. 10.00 er Myndamorgunn á vegum Héraðsskjalasafnsins skv. fyrri auglýsingu. 

Ebba
Ebba Guðný er kennari að mennt en hefur haldið fyrirlestra um heilsusamlegt mataræði og líferni síðan 2006. Mest hefur hún haldið erindi og námskeið fyrir foreldra ungra barna. Ebba er þekkt fyrir að tala mannamál og hafa húmor fyrir sjálfri sér. Hún hefur barist við fæðuóþol og magavandræði frá unga aldri og hefur þess vegna garfað í heilsu og næringu í rúm 20 ár og er orðin hokin af reynslu. 

Hennar áhugi hófst er hún var um tvítugt og leið ekki alltaf nógu og vel af því sem hún var að borða. Er hún eignaðist sitt fyrsta barn árið 2002 las hún allt sem hún komst yfir varðandi barnamat og næringu og skrifaði hjá sér. Þegar annað barn hennar var tveggja ára og búið var að prufukeyra allt á honum gaf hún út bókina Hvað á ég að gefa barninu mínu að borða? sem hefur verið endurútgefin þrisvar sinnum.

Ebba hefur meðfram móðurhlutverki, bókaútgáfu og heilsufyrirlestrum fengist við þáttagerð en hún skrifaði m.a. ásamt Sævari Sigurðssyni þættina Eldað með Ebbu sem sýndir voru á RÚV. Þá gaf hún út samnefndar bækur með uppskriftum úr þáttunum. Einnig skrifaði hún matreiðslubók í samstarfi við Latabæ sem seldist strax upp og er ófáanleg í dag.

Sunna Dís
Sunna er sjálfstætt starfandi bókmenntagagnrýnandi, ritlistarleiðbeinandi og skáld. Hún hefur gefið út ljóðabækurnar Ég er ekki að rétta upp hönd, Ég er fagnaðarsöngur og Nú sker ég netin mín ásamt Svikaskáldum.

Sunna starfaði áður á Borgarbókasafni Reykjavíkur og kom þar á laggirnar ritsmíðaverkstæðinu Skrifstofunni. Þar hefur hefur hún kennt ritlistarnámskeið með góðum árangri, nú síðast námskeiðið Smátextar: Frá örsögu til útgáfu. 

Aldís Arnardóttir
Aldís Arnardóttir er sjálfstætt starfandi listfræðingur og sýningarstjóri. Hún er kennari í listasögu við Sjónlistadeild Myndlistaskólans og hefur fengist við fjölbreytt verkefni á sviði myndlistar frá því hún lauk MA-prófi í listfræði við Háskóla Íslands árið 2012. Hún var greinahöfundur og myndlistarrýnir Morgunblaðsins um árabil og hefur haldið fyrirlestra og skrifað fjölda sýningartexta fyrir listamenn og gallerí. Hún hefur sinnt rannsóknarverkefnum tengdum myndlist, t.d. vegna vegna útgáfu bókar um Eirík Smith og fyrirhugaðrar útgáfu bókar um Gunnar Örn.

Einnig má sjá heildaryfirlit yfir viðburði í mars með því að smella hér.

 

 

Categories:

Tags:

Comments are closed