Nýverið litu við hjá okkur þau Katrín G. Gunnarsdóttir og Hákon Örn Arnþórsson, sem bjuggu fyrr á árum í Borgarnesi.  Þau komu til að sjá sýninguna Landslag væri lítils virði... sem opnuð var 29. febrúar í samstarfi við Listasafn ASÍ og undir sýningarstjórn Elísabetar Gunnarsdóttur.

Á sýningunni má m.a. sjá fallegt málverk eftir Ásgrím Jónsson (1876-1958) sem ber heitið Strútur og málað er í nágrenni Húsafells árið 1916. Þannig hagar til að í eigu Katrínar og Hákonar er málverk eftir Pétur Friðrik þar sem sjá má mjög svipað sjónarhorn á Strút og líkt litaval.  Pétur Friðrik (1928-2002) var mikill náttúruunnandi og málaði mikið af landslagsmyndum. Athyglisvert er að hann lærði á sínum tíma mikið af Ásgrími Jónssyni og fékk að fylgjast með honum við að mála á Húsafelli mörg sumur eins og kemur fram í minningarskrifum Steins Loga Björnssonar í Morgunblaðinu við lát Péturs Friðriks árið 2002:

„Segja má að Pétur Friðrik hafi verið sá síðasti af gömlu meisturunum og eins konar tengiliður milli þeirra og nútímans, í tíma og í gegnum samskipti og vinskap við þá. Hann lærði t.d. mikið af Ásgrími Jónssyni og fékk að fylgjast með honum við að mála á Húsafelli mörg sumur. Pétur Friðrik stundaði ávallt list sína úti í náttúrunni. Hann fór á öllum tímum og í öllum veðrum til að ná ákveðnum litar- eða ljósáhrifum inn í myndir sínar. “

Ljósmyndir: Efst er mynd af verkinu Strúti sem var málað af Ásgrími Jónssyni í nágrenni Húsafells árið 1916. Verkið er í eigu Listasafns ASÍ.

Neðar er ljósmynd af verki Péturs Friðriks af svipuðu myndefni, verkið er í eigu Katrínar G. Gunnarsdóttur og Hákonar Arnar Arnþórssonar.

 

Categories:

Tags:

Comments are closed