Már Jónsson prófessor flytur fyrirlestur um bókina Pilt og stúlku og höfund hennar í Safnahúsi fimmtudaginn 15. febrúar kl. 20.00. Verkið skrifaði Jón Thoroddsen þegar hann stóð á þrítugu, en hann var á sínum tíma sýslumaður Borgfirðinga og bjó á Leirá. Í ár eru 200 ár liðin frá fæðingu Jóns. Af því tilefni hefur fyrsta útgáfa bókarinnar verið endurprentuð og hafði Már umsjón með því verkefni.
Piltur og stúlka er gamansöm örlagasaga Sigríðar Bjarnadóttur og Indriða Jónssonar, sem eftir misskilning á misskilning ofan fá loks að eigast. Söguþráður er látlaus en ýmsar persónur ógleymanlegar, helst þá Gróa á Leiti og Bárður á Búrfelli. Skáldsagan kom fyrst út í Kaupmannahöfn vorið 1850 og markaði tímamót í bókmenntasögu Íslands.
Fyrirlesturinn verður í Hallsteinssal á efri hæð Safnahúss. Framsagan tekur 45-60 mínútur, síðan verða umræður og kaffispjall. Allir velkomnir og aðgangur er ókeypis.
Comments are closed