Í morgun fór Sævar Ingi héraðsbókavörður í heimsókn í leikskólann Klettaborg í Borgarnesi og færði nýjum nemendum lánþegaskírteini. Tilefnið er bókasafnsdagurinn og alþjóðlegur dagur læsis, 8. september. Af sama tilefni fyrir ári síðan var öllum nemendum Klettaborgar færð lánþegaskirteini. Hafa mörg börn nýtt sér það og komið ásamt foreldrum í bókaleit á safnið. Skírteini hafa einnig verið afhent nemendum Uglukletts.
Einkennisorð bókasafnsdagsins eru „Lestur er bestur- út fyrir endimörk alheimsins“. Markmiðið er annars vegar að vekja athygli á mikilvægi bókasafna og hins vegar að vera dagur starfsmanna safnanna. Í Safnahúsi verður í dag boðið upp á konfekt í tilefni dagsins.
Sameinuðu þjóðirnar gerðu 8. september að alþjóðadegi læsis árið 1965 og er fólk, hvar sem það er í heiminum, hvatt til þess að lesa upp, segja sögur, fara með ljóð eða á annan hátt nota tungumálið til ánægjulegra samskipta.
Héraðsbókasafn Borgarfjarðar er eitt fimm safna í Safnahúsi. Það sinnir fjölbreyttri þjónustu fyrir lánþega sína sem eru að jafnaði rúmlega 500 á ári hverju, heimsóknir á safnið eru að jafnaði á milli 7-8 þúsund manns á ári. Þar vega hæst heimsóknir lánþega safnsins en á meðal ári eru um 14 þús. safneintök lánuð út. Auk bóka og tímarita lánar safnið einnig út myndefni og hljóðbækur. En starfsemin er fjölþættari, sumir kíkja í nýjustu dagblöðin og tímaritin, aðrir þurfa að komast í tölvu eða nýta þráðlaust internet. Og enn aðrir nýta lesaðstöðuna fyrir lestur og eða lærdóm. Þá er árlega haldið sagnakvöld þar sem lesið er upp úr nýjum verkum, borgfirskir höfundar eru reglulega kynntir m.a. á heimasíðu og svo koma oft hópar í heimsókn bæði á leik-, grunn og framhaldsskólastigi. Þá eru bókakoffort lánuð í skólana í héraðinu; bæði leik og grunnskóla.
Ljósm.: börn við lestur á bókasafninu. GJ.
Comments are closed