Í gær var Héraðsskjalasafninu fært merkilegt skjal að gjöf.  Um var að ræða frumrit af gjafabréfi frá árinu 1957 fyrir altaristöflu í Staðarhraunskirkju. Altaristaflan var gefin í minningu Péturs Finnbogasonar frá Hítardal (1910-1939) af systkinum hans.  Svo segir m.a. í gjafabréfinu: „Altaristaflan er gerð af Barböru Árnason, sem vann verk sitt af ljúfu geði og er tjáning þeirra orða Jesú Krists er hann segir: „leyfið börnunum að koma til mín.“  Síðar segir svo: Að frumkvæði móður okkar var einmitt oft um það rætt í Hítardal, hve ánægjulegt það yrði ef Staðarhraunskirkja eignaðist altaristöflu. Nú rætist þessi draumur.“

Gefendur listaverksins á sínum tíma voru eftirtaldir: Kristófer Finnbogason,  Leifur Finnbogason, Teitur Finnbogason, Björn Finnbogason, Helgi Finnbogason, Kristján Finnbogason, Bergþór Finnbogason, Gunnar Finnbogason,  Héðinn Finnbogason og Kristín Finnbogadóttir. Foreldrar þeirra voru Finnbogi Helgason (1878-1951) og Sigríður Teitsdóttir (1884-1951), bændur í Hítardal.

Staðarhraunskirkja var byggð 1954 og var því nýtt guðshús þegar altaristaflan var gefin. Afrit af gjafabréfinu hefur verið komið fyrir í kirkjunni, en frumritið er eins og áður sagði nú komið í góða vörslu héraðsskjalasafns.  Það var Pétur Kristjánsson sonur Kristjáns Finnbogasonar sem færði safninu skjalið fyrir hönd fjölskyldunnar.

 

Ljósmynd: Pétur Kristjánsson með gjafabréfið.
Myndataka: Halldór Óli Gunnarsson.

Categories:

Tags:

Comments are closed